29.02.1924
Neðri deild: 11. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1234 í C-deild Alþingistíðinda. (2708)

26. mál, kosningar til Alþingis

Flm. (Bjarni Jónsson):

Frv. þetta flutti jeg á þingi í fyrra, en þá náði það ekki fram að ganga. En jeg vænti, að nú muni fara á annan veg. Frv. hvílir á þeirri grundvallarskoðun, að kjósendum sje rjett að nota kosningarrjett sinn. En hitt sje rangt, að Alþingi sjái ekki um, að önnur lög hefti ekki þann rjett. Þess verður vel að gæta, að rjettur kjósanda er hinn æðsti rjettur, og þingi þjóðarinnar, sem fer með drottinvaldið á voru landi, er skylt að tryggja hann. En með þeim kosningalögum, sem nú gilda, er kjósendum gert ómáttugt að sækja kjörfund, sem settur er á hádegi og svo ef til vill lokið eftir skamma stund. Allir, sem þekkja til í sveitum, vita, að þetta er alveg ófæra.

Því á vetrarkjördegi er allra veðra von, og auðvitað, að ekki geta allir komist í einu að heiman. Það er ekki hægt að fara frá sjúklingum og börnum, eða fjenaði, svo að enginn sje eftir til að gæta. Hjer verður því að finna aðra aðferð, sem ekki hafi slíkan rjettindamissi í för með sjer. Virðist það vera einfaldast og rjettast, að lengja kosningatímann, svo heimilin geti skift sjer til kosnanna. Mundu þrír dagar verða nógur tími. Þó mundi geta brugðið út af því um þá, sem yfir sjó eiga að sækja.

Hv. þm. N.-M. (ÁJ og HStef) hafa komið fram með frv., sem fer í þá átt að fjölga kjörstöðum og minka kjörsvæði, og er það að vísu endurbót, þótt mín tillaga sje fullkomnari. Þá vil jeg drepa á eitt atriði, sem rjett er að taka upp, hvort frv. sem samþ. verður. En það er, að sömu reglur skuli gilda um kosningar í eyjum og nú gilda um skip. Þeir, sem á eyjum búa, eiga alveg undir veðri, hvort þeir geta sótt kjörfund. Jeg get nefnt dæmi úr mínu kjördæmi, svo sem Rauðseyjar, Rúfeyjar og Akureyar. Þurfa menn, sem í eyjum þessum búa, að sækja langan sjóveg til kjörstaðar, svo sem hjeðan upp á Akranes. Og verður til þess mjög að sæta veðri, því mikið er í húfi, að menn komist til baka óhindrað, því aldrei má vanta bát eða bátshöfn til þess að bjarga fjenaði eða vitja læknis, ef þörf gerist. Er raunar sama og að tekinn sje kosningarrjettur af þessum mönnum. Eins og hv. þm. Barð. (HK) er kunnugt, komast menn úr eyjum oft alls ekki á kjörfundi. Þetta gildir um allar eyjar á Breiðafirði, Æðey, Vigur og fleiri eyjar.

Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um þetta mál að sinni. En jeg beiðist þess, að það verði látið ganga til allshn., að lokinni umr., og komist þar í pottinn ásamt næsta frv. Það er höfuðatriði, að kjósendur geti neytt rjettar síns. Hitt varðar minnu, hvernig því verður fyrir komið.

Lýk jeg svo máli mínu, og óska jeg, að frv. gangi til 2. umr.