29.04.1924
Neðri deild: 58. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 946 í B-deild Alþingistíðinda. (272)

1. mál, fjárlög 1925

Fjármálaráðherra. (JÞ):

Jeg hefi ekki mikið að segja að þessu sinni. Jeg ætla ekki að ræða neitt verulega einstakar till. hv. nefndar, en vil þó aðeins þakka henni, að hún hefir tekið upp leiðrjetting á embættislaunum vegna væntanlegrar hækkunar á dýrtíðaruppbót opinberra starfsmanna, og bætt við aftur 68 þús. kr. við þær 100 þús. kr., sem samþyktar voru í hv. Ed. Jeg er annars hissa á því, að þessi till. mín skyldi geta valdið nokkrum ágreiningi, því jeg lít svo á, að það sje hrein og bein skylda þingsins að áætla lögskipuð útgjöld með þeirra fullu hæð, eftir því sem sjeð verður, er fjárlögin eru búin til. Og það getur ekki talist sæmilegt að hafa þau lægri, í því einu trausti, að betur kunni að ráðast úr en útlitið bendir til; slíkt væri gagnstætt öllum rjettum reglum í þessu efni. Jeg vona, að háttv. deild fallist á þessa till. hv. nefndar, því hjer er ekki um það að ræða, að stofnað sje til neinna nýrra útgjalda, heldur er þetta aðeins leiðrjetting á áætlun, sem skökk var sökum þess, að sú dýrtíð, sem nú er, var ekki komin í ljós, þegar fyrverandi stjórn samdi fjárlagafrv. sitt.

Meðal lækkunartill. hv. nefndar eru hjer 2 eða 3 till., sem eru niðurfærsla á áætlunarupphæðum, og lít jeg svo á, að þær hafi engan rjett á sjer. Þar er meðal annars till. um að fella burt hækkun á viðhaldskostnaði flutningabrauta, sem inn hefir komist í hv. Ed. Er með öllu óforsvaranlegt að fella hana burt eftir að vegalögin hafa verið samþykt eins og þau eru, því þar er um að ræða hækkun, sem nemur að minsta kosti 25 þús. kr. Að lækka þennan lið aftur er því bara að svíkja sjálfan sig. Hið sama gildir um niðurfærslu fjárveitingar til tímakenslu í mentaskólanum. Jeg sje ekki annað en það sje að svíkja sjálfan sig, þó í litlu sje, að færa þann lið niður um 2000 kr. Af þessu leiðir enga raunverulega lækkun á útgjöldunum.

Um hinar till., sem fela í sjer raunverulegar niðurfærslur útgjalda, mun jeg ekki tala margt. Það er ekki hægt annað en taka þeim vel. Og þó jeg sje ekki viss um, jeg geti fylgt þeim öllum, þá mun jeg þó greiða flestum þeirra atkvæði mitt.

Jeg á hjer aðeins eina brtt., sem hefir verið útbýtt hjer á fundinum, og jeg vona, að háttv. deild leyfi, að hún komi hjer til atkvæða. Þessi brtt. fer fram á það að veita prestsekkju Steinunni Bjarnadóttur viðbót við eftirlaun, svo að hún hafi sömu eftirlaun og aðrar prestsekkjur. Það er ekkja sjera Sigurðar heitins Stefánssonar frá Vigur, sem hjer ræðir um.

Þá þykir mjer rjett að geta þess, að jeg hefi orðið var við það af reynslu minni sem fjármálaráðherra, að enn eru ýmsir útgjaldaliðir áætlaðir lægri í frv. en nokkrar líkur eru til, að þeir geti orðið í raun og veru. Þetta stafar af missmíði á fjárlagafrv. frá upphafi. Háttv. fjvn. hefir leiðrjett ýmislegt, sem þannig var of lágt áætlað frá upphafi. En jeg hefi þó veitt því eftirtekt, að henni hefir sjest yfir ýmsa slíka liði. En þó jeg hafi veitt því eftirtekt, að sumir liðir sjeu enn of lágt áætlaðir, þá hefi jeg, eins og eðlilegt er, hvorki haft tíma nje kunnugleika til þess að fara nákvæmlega í gegnum frv. í þessu skyni. Og þess vegna hefi jeg ekki heldur talið rjett að koma fram með brtt. við einstaka liði frv. til leiðrjettingar á slíku. Jeg segi þetta til þess, að það komi engum á óvart, þó að umframgreiðslur verði á nokkrum liðum. Jeg skal til dæmis nefna upphæðina, sem veitt er til þess að gegna ríkisfjehirðisstörfum. Sú upphæð er nú áætluð 20 þús. kr., en árið 1923 var hún 25 þús. kr., og það er ekki sjáanlegt, að hún geti lækkað að öðru en þá kaupi fólksins, sem þar vinnur. Og þetta kaup getur ekki breyst nema eftir því sem vísitalan hækkar eða lækkar, eins og laun annara starfsmanna ríkisins. Nú hefir ríkisfjehirslan verið flutt úr húsnæði, sem kostaði 100 kr. á mánuði, í húsnæði, sem kostar 190 kr. á mánuði. Það er því auðsjeð, að fjárveitingin til þessa starfs er of lág. Líkt má segja um hagstofuna. Henni eru áætlaðar til húsnæðis, ljóss, hita og ræstingar 2000 kr., en nú er hún nýlega flutt í húsnæði, sem á að kosta 300 kr. á mánuði, auk ljóss, hita og ræstingar. Það mun að vísu verða reynt að fá þetta lækkað, en auðsjeð er, að ekki er hægt að koma leigunni niður neitt líkt því, sem áætlað er í frv.

Þá þykist jeg hafa veitt eftirtekt lið í 14. gr. A, b. III., sem er framlag til prestlaunasjóðs, 210 þús. kr. Þessi liður reynist vafalaust 30–40 þús. kr. hærri en áætlað er í frv. Jeg get ekki sagt, hvernig á þessum mismun stendur, en þessi liður er óbreyttur frá því, sem var í frv. fyrv. stjórnar.

Þá eru því miður ekki líkur til þess, að útgjöld ríkisins vegna berklavarnalaganna muni geta lækkað nokkuð frá því, sem nú er, þar sem svo virðist, sem breyting á lögum um berklavarnir muni ekki ná að ganga fram á þessu þingi. Það er því ljóst, að upphæðin, sem til þeirra er ætluð í frv., 200 þús. kr., er alt of lág eftir undangenginni reynslu, þar sem útgjöld ríkissjóðs í þessu skyni eru nú komin upp í 300–400 þús. kr. Og við þá upphæð bætist enn samkvæmt breytingu, sem gerð var á berklavarnalögunum í fyrra, sem ljetti að nokkru þessum kostnaði af sýslufjelögunum, það sem hann fer yfir 2 kr. á hvern sýslubúa. Þessi breyting berklavarnalaganna er nú farin að verka og virðist ætla að auka útgjöld ríkisins á þessum lið enn frá því, sem áður var.

Jeg tel raunar, að ekki skifti miklu máli í sjálfu sjer, hvort slíkar áætlanir eru leiðrjettar eða ekki, úr því að ekki er hægt að vita hvort sem er, hver verður hin endanlega niðurstaða. En þegar dæma skal um það, hvort fjárlögin hafi verið afgreidd með tekjuhalla eða ekki, þá verður ekki hjá því komist að líta á það, ef það er vitað, að svona stórar gjaldaupphæðir eru of lágt áætlaðar. Og þó nú hv. Ed. telji sig hafa afgreitt fjárlögin með 170 þús. kr. tekjuafgangi, þá þarf ekki að nefna nema þennan eina lið, berklavarnirnar, til þess að sýna það, að enginn tekjuafgangur verður á fjárlagafrv. eins og það liggur nú fyrir.