18.03.1924
Neðri deild: 26. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í C-deild Alþingistíðinda. (2724)

83. mál, fátækralög

Bernharð Stefánsson:

Jeg býst ekki við að greiða atkvæði með frv. þessu út úr deildinni, eins og það liggur fyrir, en get þó tekið undir margt, sem hv. flm. (JBald) sagði, t. d. það, að hart sje að svifta menn borgaralegum rjettindum, þó þeir hafi neyðst til að leita sjer sveitarstyrks, vegna atvika, sem þeim eru óviðráðanleg. En það, sem mjer finst aðallega vanta í frv., er það, að trygt sje, að menn geti ekki, í skjóli þessara laga, lagt árar í bát í lífsbaráttunni og kastað áhyggjum sínum upp á sveitarfjelagið. Skal jeg í þessu sambandi benda á tvö dæmi.

Samkvæmt frv. þessu er það ekki talinn sveitarstyrkur, sem veittur er vegna ómegðar. En sá styrkur er þar talinn veittur vegna ómegðar, sem þeim er veittur, er hefir 3 eða fleiri framfærsluskyld börn. En nú má það engum teljast ofvaxið, sem heilbrigður er, að sjá fyrir 3 börnum. Því gæti þetta ýtt undir menn að leita til sveitarinnar að þarflausu, ef ekki væru sjerstök tryggingarákvæði, sem hömluðu því.

Sá stykur er heldur ekki talinn sveitarstyrkur samkv. frv., og veldur ekki rjettindamissi, sem veittur er sökum atvinnuskorts. En hverjar eru markalínur þess, sem teljast skal atvinnuskortur? Myndi það ekki geta heyrt undir atvinnuskort, að menn vildu ekki vinna? Fyrir þessu álít jeg ekki næga grein gerða í frv., en tel varfærni í þessu efni mjög nauðsynlega.

Þá mintist hv. flm. (JBald) á það, að heppilegt myndi vera að gera landið alt að einu framfærsluhjeraði. Að það væri allra hluta vegna rjettlátast, get jeg fallist á, en slíkt fyrirkomulag myndi án efa reynast dýrara.

Þó jeg þannig geti ekki fylgt þessu frv., eins og það liggur fyrir, þá vil jeg að lokum mæla með því, að það verði látið ganga til 2. umr. og til nefndar, því það hefði víst ekki verið vanþörf á að endurskoða alla fátækralöggjöf vora, og má vera, að athugun þessa frv. í nefnd yrði til að flýta því máli, svo að næsta þing geti tekið ákvarðanir í því efni.