28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1255 í C-deild Alþingistíðinda. (2729)

83. mál, fátækralög

Frsm. minnihl. (Jón Baldvinsson):

Hv. frsm. meirihl. (JK) drap á það bæði áðan og núna, að sveitarsjóðirnir yrðu að fá einhverja tryggingu í staðinn.

Jeg veit nú ekki, hver munur er á því fyrir sveitarsjóðinn í sjálfu sjer, hvort menn missa mannrjettindi við að þiggja af sveit eða ekki. Jeg hygg, að sveitarsjóðirnir muni reyna, eftir því sem þeir frekast geta, að halda uppi atvinnu handa mönnum, svo þeir þurfi ekki að leita eftir peningastyrk, enda er það stórhagur fyrir sveitarsjóðina að halda uppi fátækrahjálpinni á þann hátt.

Það er auðvitað sjálfsagt að koma á fót tryggingum, en það er nú svo, að það hefir verið leitað í því skyni til þingsins ár eftir ár, en ekki fengist neitt fram. Menn hafa þá þóst þurfa að athuga málið svo nákvæmlega, og dregið málið þannig frá þingi til þings, sem sagt, hlaupið í sömu skúmaskotin og þeir, sem nú vilja komast hjá breytingum á fátækralögunum. Og þannig myndi enn fara, þó nauðsynlegt væri að koma á tryggingum, sem ljettu á sveitarsjóðunum, að þær tilraunir myndu stranda á sömu mótbárunum og bornar eru fram gegn þessu frv., að málið sje ekki nógu rannsakað, þó það hafi legið fyrir mörgum þingum. Hv. frsm. meirihl. (JK) er því að slá sjálfan sig og þá, sem honum fylgja, með þessari athugasemd.