28.04.1924
Neðri deild: 57. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1257 í C-deild Alþingistíðinda. (2731)

83. mál, fátækralög

Frsm. minnihl. (Jón Baldvinsson):

Ef það, sem hæstv. atvrh. (MG) hefir á móti frv., kæmi af góðum hug, hefði hann getað borið fram brtt. við það til bóta. En mjer virðist sem honum sje mest umhugað um að snúa út úr frv. algerlega að óþörfu.

Hvað 1. lið snertir er auðvitað átt við, eins og orðanna hljóðan bendir til, mann, sem hefir þessi börn heimilisföst. Því bæði koma menn oft börnum sínum fyrir annarsstaðar, kanske alveg frítt, og hinsvegar geta þessi börn verið komin undir berklaveikislögin eða 77. gr. fátækralaganna, og fengið þannig styrk án rjettindamissis. Hjer er einmitt miðað við venjulega fjölskyldu, þ. e. 5 manna fjölskyldu, sem hefir börn sín heima, og jeg fæ ekki sjeð, að orðalagið sje neitt varhugavert eða óskiljanlegt, eins og hæstv. atvrh. (MG) virðist halda. Það er líka mjög eðlilegt, að munur sje gerður á karlmanni og konu, því konan á venjulega miklu erfiðara með að sjá fyrir einu barni en karlmaður fyrir tveimur. En auðvitað merkir orðið „heimilisföst“ sama í báðum tilfellum og á við bæði, þó hæstv. atvrh. (MG) ætlaði að snúa út úr þessu.

Þá mintist hæstv. atvrh. (MG) á hina liðina, sjerstaklega á c-liðinn, og taldi, að samkv. honum nægði að vísa fjölskyldunni á einhverja atvinnu, hvort sem hún væri henni að gagni eða ekki. Ef til vill mætti skilja þetta svo, ef litið er á það sem lagakrók, en jeg ímynda mjer, að hann sem ráðherra myndi varla fallast á þennan skilning. Jeg efast um, að hann myndi líta svo á, að manni væri vísað á atvinnu, þó sagt væri við hann: Farðu upp að Elliðakoti eða austur yfir heiði, þar er sjálfsagt eitthvað handa þjer að gera. Nei, þetta var, eins og hitt, tómur útúrsnúningur. En það skaust þó þarna upp það sanna hjá hæstv. atvrh. (MG), það, sem hann að líkindum telur meinabótina á öllu atvinnuleysinu í landinu. Hann vildi láta segja við mennina: Farðu til Ameríku, við höfum ekkert brúk fyrir þig á þessu landi. Þetta er víst hans skoðun.

Jæja. Jeg býst nú ekki við, að hæstv. atvrh. hafi sannfært menn um, að þetta frv. sje ófært til að verða að lögum, enda verða ekki margir lögfræðingar til að fylgja krókaleiðum hans í þessu efni.