09.04.1924
Neðri deild: 46. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í D-deild Alþingistíðinda. (2930)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Magnús Jónsson:

Mjer varð það ekki fyllilega ljóst af ræðu hv. þm. (JakM), hvað það er, sem þessari till. er ætlað að afreka. Það er sagt í greinargerðinni, og var einnig tekið fram af hv. þm., að það stæði næst, að Landsbankinn leysti þennan hnút, af því að hann ætti áhugamála að gæta í hjeruðunum og gæti hæglega unnið upp hjálpina. En nú hefir Landsbankinn gert sitt tilboð í þessu efni, og tillagan ætti þá að ganga út á það að fá hjer inn öflugri samningsaðilja fyrir sparisjóðsins hönd, þar sem er ríkisstjórnin, til þess að knýja bankann lengra í samningum en honum þykir forsvaranlegt. Bankinn hefir hjer auðsjáanlega gengið svo langt sem unt er, ef á annað borð á að halda í venjulega bankareglu. Hann hefir viljað borga 70% af innstæðunni, og láta auk þess innstæðueigendur njóta alls, sem betur rættist úr. Lengra er ekki hægt að fara, nema þá með því að takast hreint og beint á hendur að borga það tap, sem þegar er orðið. Nú telja menn þetta ekki vera fært ríkissjóðnum, en svo virðist sem það sje þá tilætlunin, að Landsbankinn geri það. Hjer er auðsjáanlega komið inn á sama sviðið og í frv. um búnaðarlánadeildina, er Alþingi var ætlað að skylda bankann til að gera ráðstafanir, sem ekki voru verjandi frá sjónarmiði bankans. Jeg held því fram nú sem þá, að þetta sje mjög varhugaverð braut, enda lít jeg svo á, að tilboð bankans sje eins aðgengilegt og hugsanlegt sje. Ef lagt væri út í hitt, að skuldbinda bankann til að borga svo og svo háan hundraðshluta, þá væri þar með farið inn á braut, sem kynni að reynast allhættuleg. Við vitum ekkert um hag hinna sparisjóðanna, en hinsvegar erfitt að standa í móti samskonar beiðni frá þeim, ef þetta yrði veitt. Það er að vísu sagt svo, að sparisjóðir eigi að vera tryggir, en svo er þó naumast á slíkum tímum sem þeim, er nú standa yfir. Í raun og veru er eins um þá og önnur fyrirtæki, að eigendurnir verða ávalt að eiga eitthvað á hættu.

Jeg vil því að endingu taka það fram, að þessi till. er annaðhvort þýðingarlaus, eða þá að hjer er tekin upp stefna, sem mjög erfitt verður að fylgja.