15.04.1924
Efri deild: 49. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í D-deild Alþingistíðinda. (2944)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Sigurður Eggerz:

Þar eð fjármálaráðherra var veikur, mætti jeg fyrir hönd fyrverandi stjórnar á fundi, sem haldinn var á Eyrarbakka með inneigendum sparisjóðsins. Jeg benti þar á ýmsar leiðir út úr öngþveiti því, er sjóðurinn var kominn í. Ein var sú, að sparisjóðsinneigendur gæfu eftir 15% af inneignum sínum, er þeir fengju svo síðar, ef sparisjóðurinn ynni sig upp. En á móti því vildi jeg láta það koma, að jeg legði til við Alþingi, að ríkið tækist á hendur takmarkaða ábyrgð á nokkrum hluta inneignanna. Með þessu móti mundi sjóðurinn undir nýrri stjórn hafa komist á rjettan fót.

Virtust allir una vel við þetta. Var nefnd sett í málið, og komst hún að sömu niðurstöðu. En svo var haldinn fundur við Ölfusárbrú. Þar var samþykt að láta Landsbankann taka sjóðinn að sjer. Sje jeg þó ekki, að enn sje fengin full vissa fyrir því, að Landsbankinn vilji taka hann að sjer. Teldi jeg það ófyrirgefanlegt kæruleysi af þinginu, ef það lætur þetta mál afskiftalaust. Alt Suðurlandsundirlendið á um sárt að binda, ef þetta mál verður ekki heppilega leyst. Þó að þessi þingsályktunartillaga verði samþykt, er engin vissa fyrir því, að Landsbankinn taki málið í sínar hendur. Þarf því að vita um það áður en málinu er ráðið til lykta.