01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2946)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Ástæðurnar fyrir þessari þáltill. munu vera hv. deildarmönnum kunnar, enda eru þær mjög skýrlega teknar fram í greinargerðinni. Fjhn. þessarar hv. deildar hefir athugað till. og kynt sjer málið rækilega, og hefir hún komist að þeirri niðurstöðu, að málið væri þannig vaxið, að það verði ekki látið afskiftalaust af þingi og stjórn. Ennfremur hefir hún komist að sömu niðurstöðu um það og fjvn. hv. Nd., sem flutti till., að úrlausn þessa máls sje best fengin, ef hægt væri að ná samningum við Landsbankann með þeim kjörum, sem þáltill. stingur upp á. Jeg skal geta þess, að tveir hv. nefndarmenn hafa dálitla sjerstöðu í málinu, sem reyndar kveður ekki mikið að, og munu þeir væntanlega gera grein fyrir henni.

Nefndin var sammála um, að ekki væri tiltækilegt, að ríkissjóður tæki sparisjóðinn að sjer, til að greiða úr því ástandi, sem hann er kominn í. En hún áleit, að Landsbankinn gæti hlaupið undir bagga sjer að skaðlausu. Eins og nál. ber með sjer, leggur nefndin eindregið til, að þáltill. verði samþykt. Jeg geri ráð fyrir, að þeir hv. nefndarmenn, sem skrifuðu undir með fyrirvara. lýsi, í hverju hann er fólginn.