01.05.1924
Efri deild: 59. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 79 í D-deild Alþingistíðinda. (2947)

124. mál, sparisjóður Árnessýslu

Jónas Jónsson:

Eftir því, sem jeg best veit, vakir alveg það sama fyrir okkur báðum nefndarmönnum, sem skrifuðum undir með fyrirvara. Þessi till. gerir ráð fyrir, að hæstv. stjórn semji við Landsbankann um sparisjóðinn, að hann tryggi 80% af innstæðufje sjóðsins. Þetta er æskilegt, og við viljum alls ekki draga úr því að fá þessa upphæð trygða.

Jeg hefi kynt mjer, hvernig bankastjórnin lítur á málið. Af því að við í fjhn. hv. Ed. höfum ekki haft tækifæri til að tala við stjórn bankans sem nefnd, vil jeg skýra frá samtali mínu við bankastjórnina. Hún segist hafa skrifað hæstv. stjórn í vetur og tjáð sig fúsa til að tryggja inneigendum sparisjóðsins 70%. Ennfremur teldi bankinn sig reiðubúinn til að leyfa innstæðueigendum að kjósa til einhvern valinn mann úr sínum hóp til þess að fylgjast með rekstri sjóðsins og eiga þar íhlutun, meðan innköllun fjárins stæði yfir, sennilega 10–12 ár. Yrði þetta gert til öryggis því, að ekki yrði gerð nein ráðstöfun, sem leiddi tap yfir sparisjóðinn. Í þriðja lagi hefir bankinn boðið, að svo framarlega sem meira komi inn en 70%, skyldi það verða borgað inneigendum í sömu hlutföllum og inneignin. Jeg sje enga líklega ástæðu fyrir, að Landsbankinn skaðist á þessu, og ekki heldur að sparisjóðurinn tapi á því. Ef svo skyldi reynast, að sparisjóðurinn væri ekki verður nema 70%, eða 10% minna en þáltill. gerir ráð fyrir, þá hefir hagsmunum bankans verið fórnað til þess að hjálpa inneigendum sparisjóðsins; þá hefir ríkið þrýst bankanum til að taka að sjer eign með hærra verði en hún var verð.

Ef bankinn tekur við þessari eign, er jeg alveg mótfallinn því, að hann sje látinn græða á henni. Jeg vil láta bankann taka sjóðinn með 70%, en innheimtist t. d. 15% meira, eins og búast má við eftir mati, vil jeg, að það renni til inneigenda sjóðsins, svo sem jeg hefi áður tekið fram.