02.05.1924
Efri deild: 60. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 110 í D-deild Alþingistíðinda. (2988)

143. mál, Landspítalamálið

Forsætisráðherra (JM):

Um getu ríkissjóðs til þess að leggja fram fje til þessarar byggingar get jeg vitanlega ekkert sagt fram yfir það, sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir áður tekið fram. En jeg skal endurtaka þakklæti mitt til landsspítalasjóðsnefndarinnar fyrir hennar góða tilboð, en get vitanlega ekki, frekar en áður, lofað fyrir hönd ríkissjóðs, að fje verði lagt fram á móti nú fyrst um sinn. Og þó að tillagan verði samþykt, býst jeg ekki við, að framkvæmdir samkvæmt 2. lið hennar geti orðið á næsta ári, því að það er ljóst, eftir þeim fjárlögum, sem nú er verið að afgreiða, að afgangur verður varla frá hinum sjálfsögðu og lögboðnu gjöldum, og þegar búið er ennfremur að lýsa yfir því, að ekkert fje sje fyrir hendi til neinna verklegra framkvæmda, þá má ekki búast við, að framkvæmd geti orðið á þessu máli nú í ár eða á næsta ári.