02.05.1924
Efri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í D-deild Alþingistíðinda. (3029)

128. mál, yfirskoðunarmenn landsreikningsins

Ingvar Pálmason:

Eins og nál. ber með sjer, leggur nefndin til, að till. þessi sje samþ. óbreytt. En þó jeg sje nál. fullkomlega samþykkur, og vilji, að upphæðir þær, sem um er að ræða, sjeu innheimtar, þá vil jeg benda stjórninni á það, að jeg tel mig alls ekki bæran að dæma um, hvort upphæðirnar sjeu allskostar rjettar. Einkum vil jeg taka það fram, að það er ekki gott að segja um upphæðina í Suður-Múlasýslu. Jeg er töluvert kunnugur því máli og veit, að það þarf að rannsaka áður en það verður innheimt.

Um upphæðina í Ámessýslu er það að segja, að henni hefir verið mótmælt af hlutaðeiganda. Jeg tel mig ekki bæran að dæma um þau mótmæli, enda þótt jeg játi, að mjer virðist þau gefa tilefni til að efast um, að upphæð sú, er stendur í aths., sje rjettmæt.

En jeg tel sjálfsagt, að upphæðin sje innheimt, og stjórnin rannsaki málið um leið og breyti upphæðinni, ef hún telur rjett.