26.04.1924
Efri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í D-deild Alþingistíðinda. (3054)

125. mál, hressingarhæli fyrir berklaveika

Sigurður Eggerz:

Jeg vil leyfa mjer að vekja eftirtekt á því, að hjer er í raun og veru um tvö mál að ræða. Hv. 5. landsk. (JJ) ræddi um það, að landið kæmi upp hressingarhæli við heita hveri. Þótt það sje í mesta máta þarft, má búast við, að langur tími líði þangað til það verður framkvæmt, vegna hinna miklu örðugleika vorra. En hjer er aðeins um að ræða að veita hinu góðkunna fjelagi „Hringnum“ jörð, þegar hún losnar, og það, sem fyrir því vakir, er að setja þar upp hressingarhæli við „Hringsins“ hæfi. Ekki er það meiningin að biðja ríkið um styrk, heldur ætlar fjelagið eftir eigin efnum að koma hælinu á fót.

Þegar við lítum á starfsemi þessa fjelags, þá virðist það mjög varhugavert að neita því um þessa bón. Jeg verð að líta svo á, að þær konur, sem fjelagið skipa, hafi unnið svo mikið og gott starf, að við mættum treysta því, að jörðin muni í höndum þeirra, með þeirri hagsýni, sem þær hafa að ráða yfir, verða að góðu gagni. Þess vegna tel jeg rjett að samþykkja tillöguna. Hjer er aðeins farið fram á lítilfjörlega aðstoð, sem ríkissjóð munar ekkert um, til þess að fjelagið geti starfað framvegis með sama áhuga og það hefir gert hingað til. Jeg vil ekki bera ábyrgð á að leggja stein í götu þessa fjelags; en það álít jeg að verði gert með því að hindra málið.

Það kann að vera rjett hjá hv. 5. landsk. (JJ), að fá megi ýmsa staði betri en þennan. Hinsvegar blandast mjer ekki hugur um, að sjúklingum, sem þurfa aðeins á hressingu að halda, þyki mikið varið í að búa á stað sem Kópavogi. (JJ: En þær sögulegu minningar?) Þær sögulegu minningar ættu aðeins að vera til aðvörunar, en ekki ættu þær að veikja heilsu þeirra, sem eru með því rjetta hugarfari.