22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í D-deild Alþingistíðinda. (3146)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jón Þorláksson:

Jeg hefi annars fáu að svara og litlu við að bæta það, sem jeg hefi áður sagt. Þar sem hv. þm. Str. (TrÞ) sagði, að kjöttollslögin norsku væru orðin tveggja ára, er það ekki nákvæmlega rjett. Tollurinn er aðeins nýorðinn tvöfalt hærri en hann var fyrst ákveðinn, og við lægri tollinn höfum við búið mestan hluta þessara tveggja ára; í raun og veru var það ekki fyr en hann var tvöfaldaður, að undan honum var kvartað. Enda þótt þetta hafi vitanlega altaf verið hagsmunamál fyrir okkur, varð það auðvitað meira síðan hann hækkaði, og nú, eins og málinu er komið, er það orðið mjög alvarlegt mál. Jeg skil ekki í öðru en hv. þm. Str. (TrÞ) geti sjeð, að það er lítið samræmi í því að vilja endilega kjósa sjerstaka nefnd í þetta mál, og að vilja þrýsta stjórninni til þess að senda menn til Noregs þegar í dag. Ef hann vildi nota þingm. til þessa, átti hann að snúa sjer til föstunefndanna, í stað þess að láta fara að ræða nú um kosningu þessarar nefndar, tveimur tímum áður en sendimennirnir áttu að fara af stað hjeðan. Þetta er því eflaust aðeins fyrirsláttur einn hjá þessum hv. þm. (TrÞ). Hann hlýtur að ætla eitthvað annað með þessu.

Þá verð jeg og að skoða það sem mismæli hjá þessum sama hv. þm. (TrÞ), sem hann talaði um, að annar eða einhver, ef fleiri yrðu en tveir, af þessum fyrirhuguðu sendimönnum til Noregs, yrðu að hafa til að bera sjerþekkingu í öllu því, er að sjávarútvegi lyti. Þetta ætti alls ekki að koma fram hjer í þessum umr., enda væri það óverjandi; þótt því miður það hafi heyrst eitthvað um það í sumum blöðum hjer, að þetta norska kjöttollsmál væri sjávarútvegsmálum vorum viðkomandi, og að sá atvinnuvegurinn ætti að leggja til skilyrðin fyrir því, að við náum þeim samningum, sem vjer teljum oss eiga sanngjarnar kröfur til.