22.02.1924
Neðri deild: 6. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í D-deild Alþingistíðinda. (3148)

24. mál, skipun viðskiptamálanefndar

Jakob Möller:

Jeg get ekki neitað því, að jeg er hálfhissa á, að þessi nefndarskipun skuli vera orðin að svo miklu deilumáli, því að mjer finst aðeins vera um að ræða „praktiskt“ fyrirkomulagsatriði. Vjek jeg að því í ræðu minni í gær, að öll viðskiftamál, sem þingið fengi um að fjalla, þyrftu helst að fara til einnar og sömu nefndar. Hefir hv. samþm. minn, 1. þm. Reykv. (JÞ), gert skilmerkilega grein fyrir þessum málum, og þarf jeg því ekki að fara út í það.

Fyrir þessu þingi liggja mörg slík mál, og er það fljótsannað, að það verður erfiðara og ver unnið að þeim í tveim nefndum.

Hv. þm. Str. (TrÞ) vjek að því, að þingin 1921 og 1922 hefðu skipað sjerstaka viðskiftamálanefnd, og er það satt; en þá stóð alt öðruvísi á en nú: fyrst og fremst voru þau viðskiftamál, sem þá lágu fyrir þinginu, þannig löguð, að þingmönnum var ekki fullljóst, hversu þau mál væru snertandi fjárhagsástæður ríkisins og alla afkomu þess, enda samband þeirra við skattamálin, sem þá voru á döfinni, miklu lausara en nú. Í öðru lagi stóð svo á, að 1921 hafði fjárhagsnefndin óvenjumiklum störfum að sinna. Ef jeg man rjett, var ekki færri en 20 skattamálafrumvörpum vísað til þeirrar nefndar þá, og var því ástæða til að ljetta störfum af nefndinni. Nú stendur sem sagt alt öðruvísi á. Nú eru fá eða engin ný skattafrumvörp á ferðinni, en hinsvegar er, að þau, sem koma kunna fram, hljóta að standa í nánu sambandi við þau mál, sem viðskiftanefndin ætti um að fjalla, svo sem innflutningshömlur. Hinsvegar kemur ekki til mála að taka tollmál eða önnur skattamál, sem upp kunna að koma, frá fjhn., og leggja þau fyrir viðskiftamálanefnd.

Mjer skilst á hv. þm. Str. (TrÞ), að hann byggi á misskilningi, er hann hyggur það aðalatriðið að skipa þessa nefnd til þess að láta hana senda menn til Noregs. Jeg fæ ekki sjeð, að það standi í neinu beinu sambandi við viðskiftahöft, tollmál og annað, sem talið er að vísa ætti til þessarar nefndar. Það var svo að heyra á hv. þm. Str. (TrÞ), að hann teldi sig og Framsóknarflokkinn hafa gert sína skyldu með því að bera fram þessa tillögu, en þetta er ekki nóg; þeir verða að vinna alveg eins að þessum málum, þó að þingið fallist ekki á að skipa þessa nefnd. Jeg get ekki fallist á annað en að þessi mál heyri undir fjhn. samkvæmt þingsköpum, og get því ekki greitt þesari tillögu atkv. mitt, til þess að skifta þessum málum á tvær hendur. Hinsvegar læt jeg óbundið atkv. mitt að því er snertir samningana við Norðmenn. Það er þessu alveg óskylt mál, og sje jeg ekki betur en að Framsóknarflokkurinn eigi eins hægt með að fylgja því máli fram, þó að landbn. fjalli um það. Hefði þeim verið þetta áhugamál, hefði þeim verið í lófa lagið að koma þessu þann veg fyrir, og engum leiðum lokað fyrir sjer eða málefninu með því.

En að því er snertir þá ástæðu hv. flm. (TrÞ), að Framsóknarflokkurinn svonefndi hafi ekki skipað í nefndir með tilliti til slíkra mála, þá mun ekki annað vænna, þótt óhyggilega hafi þar til tekist, en að bæta við mönnum í fjhn. Mjer þykir það annars leiðinlegt, um ekki öllu mikilsverðara mál en það er að skipa eina nefnd, ef það ætlar samt að endast til að koma öllu í bál og brand í þessari hv. deild, þar sem svo mikill friður og eindrægni hefir ríkt til þessa. Væri mikilsvert, ef hv. þm. vildu nú láta sefast og fara að slá botninn í þessar umr.