02.05.1924
Efri deild: 61. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1107 í B-deild Alþingistíðinda. (318)

1. mál, fjárlög 1925

Sigurður Eggerz:

Háttv. fjvn. hefir lagt til, að fjárlögin verði ekki látin fara í sameinað þing. Jeg sje því, að mjer þýðir ekki að koma með þær brtt., sem jeg mundi telja rjettmætar, þar sem jeg efast ekki um, að hv. nefnd hafi meiri hluta í deildinni. Jeg verð þó að minnast á meðferð hv. Nd. á hjeraðslækni Jóni H. Sigurðssyni. Hjeraðslæknirinn gegnir prófessorsembætti við háskólann samhliða embætti sínu og hefir fengið 1500 kr. fyrir það. Hv. Nd. telur sjer nú sæma að klípa 500 kr. af þessari upphæð, og þó er þessi maður að allra dómi sjerstaklega vel vaxinn starfi sínu. Bar á því strax, er hann stundaði nám í Danmörku, að hann hafði sjerstaklega vísindahæfileika. Og nú ljúka allir einum munni upp um það, að hann sje sá færasti maður í þessari grein, sem við eigum. Þetta vill nú hv. Nd. launa á þann hátt, sem nú er fram komið.

Þá er annað atriði. Jeg tel mjög illa farið, að brtt., sem kom fram í hv. Nd. um hækkun stúdentastyrksins, var feld. Jeg álít, að þeim hluta æskulýðs þessa lands hafi verið sýndur alt of mikill kuldi, alt of mikið skilningsleysi, með því að kippa af þeim þessum styrk, sem þeir hafa treyst á, Jeg skil vel, með hvaða hugarfari stúdentar líta á þetta, og við allir, sem höfum gengið þessa braut, ættum að skilja örðugleika þá, sem lagðir eru í götu stúdentanna með þessari framkomu. Jeg vildi leyfa mjer að skjóta því til hæstv. stjórnar, hvort hún sæi ekki einhver ráð til þess að bæta úr þessu. Og því fremur finst mjer ástæða fyrir hana að gera það, þar sem jeg get ekki sjeð annað en að hún hafi sýnt tómlæti í þessu máli.

Af því að hjer er nú verið að kveðja fjárlögin, vil jeg minna á, hvernig farið var með dr. Alexander Jóhannesson, að hann var sviftur stöðu sinni við háskólann. Finst mjer það bera vott um hörku hjá Alþingi og alllítinn skilning; því maðurinn hefir fengið hálfgert ef ekki algert loforð fyrir þessum launum og hefir búið sig undir að helga líf sítt vísindunum. Þegar hann er búinn að vinna nokkur ár, er þeim kipt af honum. Er manni þessum sýnd mikil óbilgirni. Má vera, að ýmsar slíkar misfellur stafi nokkuð af því, að hv. Nd. hefir ekki átt neina áhugamenn í mentamálum í fjvn. Þyrfti að hugsa fyrir því á næsta þingi. Fer jeg svo ekki fleiri orðum um þetta, en það verð jeg að segja, að jeg hefði skilið miklu ánægðari við fjárlögin, ef mentamönnum vorum hefði verið sýnd meiri samúð og skilningur.