12.04.1924
Efri deild: 47. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í D-deild Alþingistíðinda. (3189)

111. mál, söfnunarsjóður Íslands

Einar Árnason:

Það er víst best, úr því sem komið er, að halda áfram lopanum um þessa þál. það sem eftir er af deginum. Jeg hafði raunar ekki hugsað mjer að taka þátt í þessum umræðum, en þær hafa nú snúist svo einkennilega, að jeg sje mig til neyddan að gera litla athugasemd.

Allir, sem til máls hafa tekið, hafa hrósað sjer af því, hve hlyntir þeir sjeu landbúnaðinum. En þótt jeg efist ekki um, að þeir óski þess, að atvinnuvegir vorir gangi sem best, þá vil jeg þó ekki láta demba yfir hv. deild allskonar rugli um, að samþykt þessarar till. muni leiða af sjer málsóknir á hendur sjóðnum, og að menn hætti að leggja fje í sjóðinn, ef úr honum verður lánað út á fasteignir í sveitum. Hingað til munu þeir, sem fje hafa lagt í sjóðinn, engin skilyrði hafa sett um ráðstöfun þess, enda væru þesskonar skilyrði bæði fráleit og með öllu óframkvæmanleg. Nei, það eina, sem innlagsmenn ætlast til, er það, að sjóðurinn geymi fje þeirra á tryggan hátt, og þess eiga þeir líka kröfu til. Alt tal um málaferli í þessu sambandi er staðlausu stafir. Annars þekki jeg þess dæmi, að bændur hafa beðið um lán úr sjóðnum og boðið fyrir því jarðarveð, en ekki fengið ennþá, þótt liðin sjeu 2–3 ár síðan. Læt jeg hv. deild það eftir að dæma um það, hvort þetta kemur heim við, að landbúnaðurinn sitji í fyrirrúmi.