12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í D-deild Alþingistíðinda. (3296)

53. mál, prófessorsembættið í íslenskri bókmenntasögu

Flm. (Jakob Möller):

Í greinargerð þeirri, sem fylgir þessari till., er sagt frá tildrögum þess, að hún er fram komin, sem sje þeim, að próf. Sigurði Nordal er boðin kennarastaða við háskólann í Kristjaníu, með miklu betri kjörum en hann nýtur hjer. Sjer hann sjer ekki fært að hafna því boði, með tilliti til efnahags síns og sinna í framtíðinni, nema að kjör þau, sem hann á hjer við að búa, sjeu að einhverju leyti bætt. Það kann nú að þykja illa viðeigandi, á þessum sparnaðartíma, að hækka þannig laun einstaks embættismanns, en við, sem till. flytjum, og eins mikill meirihl. manna í þessu landi — en í undanförnu máli var mikið vitnað í vilja almennings — erum samt þessu fylgjandi, að gert sje, ef unt er, svo vel við þennan mann, að hann geti verið hjer kyr og haldið áfram að vinna að íslenskum vísindum og fræðum.

Jeg hefi hjer fyrir framan mig tvær áskoranir frá stofnun þeirri, sem próf. Sig. Nordal vinnur við. Önnur er frá stúdentaráðinu, sem skorar á Alþingi að gera alt sem í þess valdi stendur til að halda próf. Sig. Nordal við háskólann, og hin frá nemendum heimspekisdeildarinnar, sama efnis. Og jeg veit, að jeg þarf ekki að halda langa ræðu um það, hver hnekkir háskólanum væri að því, að missa þennan mann. Það stendur sem sje þannig á, að ekki er neinn kostur á færum manni í stöðu hans, ef hann fer. Hann er prófessor í íslenskri bókmentasögu, en svo vill til, að enginn af norrænumönnum vorum hefir sjerstaklega lagt stund á þessa grein, og er því ekki völ á sjerstaklega lærðum manni til að taka við embættinu.

Nú er það kunnugt, að vjer Íslendingar erum mjög mikið þektir af bókmentum vorum. Þar sem Íslands er getið í öðrum löndum, er það fyrst og fremst vegna bókmenta vorra. Það hvílir því sjerstök skylda á oss að halda uppi hróðri bókmenta vorra, og verður það verkefni Íslendinga, framar öðrum, að vinna úr fornbókmentunum. Nú vill svo til, að bókmentasaga vor, eftir 1400, hefir ekki verið rituð, en að því verki er Sigurður prófessor Nordal einmitt að vinna nú. Fari hann af landi brott, verður það verk að falla niður. Jeg hefi heyrt suma menn halda því fram, að hann gæti unnið að því verki framvegis, þó að hann flytti til Noregs. En það er misskilningur. Um leið og hann tekur þar við prófessorsembætti, tekst hann á hendur ákveðin störf. Sennilega verður það síður í íslenskri bókmentasögu, heldur en fornnorrænum fræðum. En þó að hann vildi og hefði tíma til að vinna áfram að þessu verki, á hann þess ekki kost, því að gögn þau, sem hann þarf að vinna úr, eru mestmegnis í söfnum hjer á landi. Af þeirri ástæðu er honum algerlega meinað að vinna þetta verk annarsstaðar. Það hlýtur því að falla niður fyrst um sinn, þangað til rís upp annar maður, sem fær er um að vinna þetta starf. En svo mun fara um hvern þann framúrskarandi mann, sem vjer fáum til þessa verks, að hann verður ekki fyr byrjaður á því en hann verður sóttur til útlanda og tekinn frá oss. Erlendis eru að minsta kosti 5 embætti fyrir slíka menn, og það er fyrirsjáanlegt, að fyrst um sinn er markaður fyrir alla þá menn, er fram kunna að koma á þessu sviði, ef ekki er gripið til sjerstakra ráðstafana að halda þeim hjer.

Af boði því, sem Sigurður Nordal hefir fengið frá Noregi, er það auðsætt, að háskólakennarar eru betur launaðir í nágrannalöndunum heldur en hjer. Mætti því gera ráð fyrir, að sumir teldu þetta hættulega braut, ef það ætti að álítast skylda að gera eins vel til allra háskólakennara sem gert er í nágrannalöndunum. En það kemur ekki til greina, því að engar líkur eru til þess, að aðrir háskólakennarar vorir verði eftirsóttir af nágrönnunum. Í öllum öðrum fræðigreinum en einmitt íslenskum fræðum stöndum vjer enn miklu ver að vígi en aðrar þjóðir. Auk þess hafa háskólakennarar í öðrum greinum meiri kost á að afla sjer aukatekna til viðbótar við laun sín, heldur en kennarar í heimspekideild. Það er vitanlegt, að kennararnir í lögum og læknisfræði hafa allmiklar tekjur auk embættislauna sinna, og standa því betur að vígi. Það er aðeins guðfræðideildin, sem taka má til samanburðar; kennurum þar er ekki heldur auðvelt að afla sjer aukatekna. Hinsvegar hefir þess ekki verið krafist, að kennarar í þeirri deild starfi sjerstaklega að vísindalegum rannsóknum, og eiga þeir því frekar kost á að nota tíma sinn til þess að auka tekjur sínar, heldur en þeir, sem krafist er að vinni vísindaleg störf. En sú krafa er fyrst og fremst gerð til þeirra, sem kenna norræn og íslensk fræði. Það verður því að líta svo á, að ekki sje hallað á aðra kennara háskólans, þó að kjör þessa eina manns sjeu bætt, þegar svo sjerstaklega stendur á. Og allra síst, þegar svo má líta á, og er til ætlast af okkur flm., að það fje, sem honum yrði veitt til uppbótar á launum hans, væri skoðað sem endurgjald fyrir ákveðið starf. Það er ætlast til, að honum sje á fjárlögum veittur styrkur til ritstarfa og vísindalegra rannsókna, auk kenslunnar í háskólanum, og er það þá endurgjald fyrir þá vísinda- og menningarstarfsemi, sem almenningur treystir honum manna best til að inna af hendi.

Jeg hygg, að allir hv. deildarmenn muni kannast við þann mann, sem hjer ræðir um. Hann hefir gegnt þessu embætti við háskólann síðan Björn heitinn Ólsen ljet af því. Hann tók próf í norrænum fræðum við Hafnarháskóla árið 1912, en varð doktor 1914 fyrir ritgerð um Ólafs sögu helga. Um þá ritgerð skrifaði Björn Ólsen ritdóm í Skírni, sem jeg vil leyfa mjer að lesa niðurlagið á, með leyfi hæstv. forseta:

„Að endingu leyfi jeg mjer að bjóða hinn unga vísindamann, sem hefir samið þessa bók og hlotið fyrir að maklegleikum doktorsnafnbót við Kaupmannahafnarháskóla, velkominn sem samverkamann í víngarði norrænna fræða. Vjer Íslendingar eigum engan fjársjóð dýrmætari nje veglegri en hinar fornu bókmentir vorar. En vandi fylgir vegsemd hverri. Þessi dýri arfur leggur oss Íslendingum á herðar þá skyldu, að vera ekki eftirbátar annara í því að ávaxta hann fyrir oss og niðja vora, þá skyldu að reyna að skýra og skilja sem best, og helst öllum öðrum betur, þann andlega fjársjóð, sem forfeður vorir hafa eftir sig látið. Svo er guði fyrir þakkandi, að Íslendingar hafa ekki brugðist þessari skyldu. Altaf hafa einhverjir Íslendingar verið í fremstu röð þeirra manna, sem við vor fornu fræði hafa fengist. Við gömlu mennirnir erum nú á hraðri leið til grafar, við, sem höfum reynt af einlægum vilja en veikum mætti að ávaxta arfinn fyrir þjóðina okkar. Er þá ekki von, að hjarta okkar fyllist fögnuði, þegar við sjáum unga menn og vel gefna rísa upp með nýjum og óþreyttum kröftum, menn, sem eru færir um og búnir til að taka við arfinum af okkur, þegar hann hnígur úr máttvana höndum, og vonandi ávaxta hann betur en við höfum gert. Bók sú, sem jeg hefi hjer gert að umtalsefni, gefur fyrirheiti um, að höf. hennar muni verða einn af þessum mönnum, ef honum, sem jeg vona og óska, endist líf og heilsa“.

Hjer eru meðmæli frá manni, sem að vísu er látinn, en allir munu þó sammála um, að er bærari um að dæma þessa hluti en nokkur núlifandi Íslendinga, og miklu betur en nokkur, sem hjer situr. Af þessum orðum, sem jeg las, má skilja, hve mikilsvert Björn Ólsen hefir talið, að þessi maður kom fram til þess að taka upp arfinn og halda honum á lofti, og menn geta rent grun í, hve sárt hann hefði tekið það, ef hann hefði átt að lifa að sjá landið missa af starfskröftum hans.

Jeg sje ekki ástæðu til að orðlengja frekar um þessa till. Jeg geri ráð fyrir, að hv. þm. sje ljóst, hvað um er að ræða, og að frekari ræður muni ekki hafa áhrif á atkvæði þeirra.

Þar sem ákveðið var að hafa tvær umræður um málið, mun till. einnig þurfa að ganga til hv. Ed. og fá samþykki hennar, því að krafan um tvær umræður var bygð á fjárhagsatriði því, sem felst í till., og mun hún því þurfa samþykki beggja deilda. Verður því að flytja brtt. um það við næstu umræðu, að till. skuli einnig ganga til Ed.