12.03.1924
Neðri deild: 21. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 456 í D-deild Alþingistíðinda. (3300)

53. mál, prófessorsembættið í íslenskri bókmenntasögu

Halldór Stefánsson:

Það má vel vera, að mál þetta sje stórmál, eins og látið hefir verið í veðri vaka. Og hefir þeirri hlið málsins verið lýst allátakanlega, hve mikið tjón það sje fyrir okkur að missa í burtu þennan mann. En mjer virðist það líka vera stórmál frá annari hlið. Fyrst og fremst er það brot á þeirri stefnu, sem þingið hygst að fylgja, þeirri, að mjög mikla nauðsyn beri til þess að draga úr byrðum þjóðfjelagsins eins mikið og frekast verður auðið, og verði í því efni að ganga mjög nálægt sjálfum sjer og öðrum. Í öðru lagi er það, að nái þessi þáltill. fram að ganga, þá má segja, að þingið hafi um leið gefið yfirlýsingu um það, að það telji menn með prófessorslaunum svo vanlaunaða, að þeir geti ekki lifað af þeim. Og hætta er þá á því, að verði þessi yfirlýsing og þetta fordæmi gefið, þá muni aðrir embættismenn sigla í kjölfarið, og má þá vel fara svo, að þingið sjái sjer ekki fært að stemma stigu fyrir þeirri skriðu. Og enn virðist mjer líka vera með þessu brautin rudd fyrir þá skoðun, að við ákvörðun launakjara embættismanna okkar beri ekki að taka tillit til almennra kjara þjóðarinnar, en einungis til þess, sem gerist með auðugri þjóðum. Mjer virðist, að með þessu sje brautin rudd fyrir hótunum embættis- og starfsmanna um að fara annaðhvort af landi burt eða leggja niður störf, ef þeir fái ekki kröfum sínum um launabætur framgengt. Mæli jeg þetta þó ekkert til þess manns, sem hjer á hlut að máli. Er ekki langt síðan, að slík hótun hefir komið frá einni stjett í þjónustu landsins.

Jeg lít svo á, að þótt mjer sje eftirsjón að því, að próf. Sigurður Nordal fari úr landi, þá beri oss að taka því sem hverju öðru óviðráðanlegu atviki, sem að steðjar. Það er svo margt nú á tímum, sem vjer verðum að sætta oss við og sem vjer fáum ekki við ráðið. Og jeg er ekki heldur svo mjög vantrúaður á það, að ekki geti hjer komið maður í manns stað, því þótt ef til vill sje ekki nú sem stendur um auðugan garð að gresja á þessu sviði, þá hefi jeg svo gott traust á hæfileikum þjóðar vorrar, að jeg vænti þess, að ekki líði á löngu áður en upp rísi sá maður, sem fær verði um að fylla skarðið.