22.03.1924
Neðri deild: 30. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 486 í D-deild Alþingistíðinda. (3338)

98. mál, gullkaup til seðlatryggingar

Flm. (Sveinn Ólafsson):

Fyrir oss flm. þessarar till. vakir það, að ýta á eftir framkvæmd á bankalögunum frá 1921, þar sem ákveðið er, að keypt verði gull það, er losnar úr seðlatryggingu Íslandsbanka, til tryggingar fyrirhugaðri seðlaútgáfu ríkisins. Að vísu hefir, síðan till. var afhent, komið fram frv. um seðlaútgáfu Landsbankans og starf í framtíðinni. Mætti því ætla, að till. þessi væri óþörf orðin. En frv. þetta tekur ekki til, hvenær gullið skuli keypt, nje heldur, hvort gullið skuli keypt jafnóðum og það losnar, eða á vissu árabili.

Lögin frá 1921 leggja þá skyldu á Íslandsbanka, án nokkurra nánari fyrirsagna, að selja ríkissjóði gullið með nafnverði, þegar það losnar úr seðlatryggingunni, og liggur næst að skilja það svo, að salan eigi að fara fram smámsaman, eða jafnóðum og gullið losnar, enda gera sömu lög ráð fyrir því að ríkið gefi út seðla eftir viðskiftaþörf í stað inndreginna seðla Íslandsbanka.

Hjeðan af getur ekki lengi dregist útgáfa þessara nýju seðla fyrir hönd ríkissjóðs, og ætti því ekki að fresta framkvæmd laganna lengur um gullkaupin; það hægist ekki um með þau, þegar lengra liður og stærri upphæðir losna.

Eftir lögum nr. 7, frá 1922, er ákveðið, að Landsbankinn taki seðlaútgáfuna í sínar hendur, en með samningi milli bankanna frá næstliðnum vetri, um reikningslán til handa Íslandsbanka frá Landsbankanum, samningi, sem ríkisstjórnin mun hafa samþykt, áskildi Íslandsbanki, að ný seðlaútgáfa yrði hafin af ríkinu, ef og þegar seðlafækkunin torveldaði endurgreiðslu á reikningsláninu til Landsbankans.

Bersýnilega eykst seðlaþörfin við verðfall íslensku krónunnar, og þessvegna má vænta þess, að bráðlega verði gripið til seðlaútgáfunnar. Landsbankanum ætti að vera ljett um að kaupa gullið á þessum tíma, vegna inneignar í Íslandsbanka, sem jeg hefi fyrir satt, að skifti miljónum, og Íslandsbanka er salan engin kvöð, því að gullinu má hann ekki farga eftir nefndum lögum frá 1921, nema ríkissjóður hafi neitað forkaupsrjetti á því. Það gull, sem nú er laust úr seðlatryggingu, er honum því arðlaust, en salan mundi losa hann við vexti af jafnstórri upphæð hjá Landsbankanum og þannig verða honum arðbær.

Eftir bankalögunum 1921 máttu 8 miljónir króna vera í umferð af seðlum Íslandsbanka í lok okt. 1922, en á komanda hausti eiga að vera úti 6 milljónir. Þessvegna á þá að vera laust úr tryggingu gull fyrir 2 milj. kr. í seðlum, eða um 750 þús. kr. í gulli, því að eftir bankalögum frá 1905 eiga 3/8 eða 37½% af seðlaverðinu að vera málmtrygðir. 750 þús. kr. ætti því að vera sú gullfúlga, sem kaupa þyrfti á næsta sumri, eða því minna sem Íslandsbanki kann að hafa þann ¼ málmforðans, sem leyft er að hafa í útlendum bankaseðlum, í öðru en gulli.

Upphæðin, sem seljast á með nafnverði, eða svo, að pappírskróna komi gegn gullkrónu, hlýtur að vera Landsbankanum vel viðráðanleg nú, og rjettara að dreifa gullkaupunum á lengri tíma en taka alt í einu, enda líkast, að ekki líði á löngu, áður Landsbankinn þarf að taka til seðlaútgáfunnar.

Ennþá verður ekki sjeð, hvort hið nýja bankalagafrv. gengur fram á þessu þingi, þótt svo væri ákveðið á síðasta þingi, að á þessu ári skyldi ráðstafa seðlaútgáfunni, en verði sú ráðstöfun aðeins til bráðabirgða, þá er tillagan ekki ófyrirsynju komin fram, og getur þá verið spor í áttina um framkvæmd þess, sem gera þarf, að kaupa gullið.