25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (3387)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Fyrirspyrjandi (Björn Líndal):

Eins og hv. þdm. er kunnugt, þá er langt síðan þessi fyrirspurn kom fram, og var henni þá beint til þáverandi stjórnar. Nú hafa orðið stjórnarskifti.

Ástæðan til þess, að fyrirspurnin kom fram, var sú, að talsvert orð fór af því, að nokkuð af óþörfu fólki væri við þessar verslanir, að ekki hefði mannavalið tekist sem æskilegast, og í þriðja lagi var umtal um það, að óvöldum mönnum — svo að ekki sje ofmælt — væru goldin þar miklu hærri laun en tíðkuðust annarsstaðar.

Við fyrirspyrjendur vildum gera það sem í okkar valdi stóð, til að fá ábyggilegar upplýsingar um, hvort þessi orðrómur væri á rökum bygður eða ekki.

Jeg legg engan dóm á það fyrirfram, hve mikið eða lítið kann að vera satt í þessum orðrómi, en úr því almenningsálitið er á þennan hátt, er gott að fá málið skýrt og upplýst.

Talsvert hefir þegar verið talað um þetta mál í sambandi við önnur mál, og jeg sje því ekki ástæðu til að fara um það frekari orðum að sinni.