25.04.1924
Neðri deild: 55. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í D-deild Alþingistíðinda. (3398)

81. mál, starfsmannahald við landsverslunina og áfengisverslunina

Jakob Möller:

Jeg veit ekki, hvort það var rjettur skilningur, sem hv. þm. Str. (TrÞ) vildi leggja í ræðu hv. 4. þm. Reykv. (MJ), að hann vildi nota þessi háu laun starfsmannanna við verslanir ríkisins sem skrúfu á laun annara starfsmanna. (MJ: Alls ekki!) En þá vil jeg minna hv. þm. (TrÞ) á það, að ekkert liggur nær en að þetta verði notað af öðrum starfsmönnum ríkisins til þess að skrúfa upp laun sín. það er líka sjálfsagt. Hvaða sanngirni er í því, að menn, sem eru í þjónustu ríkisins og hafa miklu ábyrgðarminni stöður en ýmsir embættismenn þess, fái mun hærri laun en þeir? það hlýtur að fara svo, að verði ekki lækkað hjá starfsmönnum verslananna, verður að hækka laun hinna.

Mjer er ekki ljóst, hvernig hv. þm. Str. (TrÞ) lítur á þetta mál. Hann virtist þeirrar skoðunar, að launin við verslanirnar sjeu of há sem embættismannalaun, en það kom ekki fram, að hann teldi þau of há sem laun þeirra manna, er þar um ræðir. Er það skoðun hans, að forstjórar og skrifstofumenn við verslanirnar eigi heimtingu á svo háum launum í þeim stöðum, sem þeir eru í nú, en geti ekki krafist nema miklu lægri launa í öllum öðrum stöðum, ef þeir væru færir um að gegna þeim? Skrifstofustjóra landsverslunar var upphaflega veitt aðstoðarmannsstaða við hagstofuna, og veit jeg ekki betur en að hann hafi veitingu fyrir þeirri stöðu ennþá. Hann er því í raun og veru embættismaður ríkisins. Jeg hefi ekki athugað muninn á launum þessara tveggja starfa, en hann er áreiðanlega allmikill. Hjer er um sama manninn að ræða. Í öðru tilfellinu, sem verslunarmaður, fær hann 10200 kr. í laun, en ef hann væri í embætti sínu við hagstofuna, mundi hann hafa 6000 kr. í mesta lagi. Þetta er sami maðurinn, með sömu hæfileika, þekkingu og getu. Hvaða sanngirni er í því, að hann hafi hærri laun í versluninni en í hagstofunni? Annaðhvort eru laun hans við landsverslunina óhæfilega há, eða launin við hagstofuna óhæfilega lág.

Jeg hefi áður bent á það, að verði verslunarrekstri ríkisins haldið áfram, hlýtur það að hafa þau áhrif, að laun embættismanna hækki. Hafi hv. þm. Str. (TrÞ) skilið ræðu hv. 4. þm. Reykv. (MJ) rjett, þá hefði hann ekki sagt annað en búast mátti við. Jeg skal ekkert um það segja, en vera mætti, að það gæti tekist að fá hæfa menn við verslanirnar fyrir lægri laun en nú eru greidd, en jeg er sannfærður um, að erfitt mun veitast að fá menn fyrir jafnlág laun sem embættismenn verða alment að sætta sig við.

Það er merkilegt í öllu þessu sparnaðarírafári, sem hjer hefir verið á ferðinni, að sjerstaklega stjórnarflokkurinn skuli ekki hafa kveðið ríkara að orði um sparnað á þessu sviði. Það vill svo til, að um það verður væntanlega rætt eitthvað frekara í sambandi við annað mál, sem nú er í nefnd, en það er frv. um sameiningu ríkisverslananna. En þó að furðulegt megi virðast, skilst mjer það frv. eiga erfitt uppdráttar, þó að bersýnilegt sje, að mikið hlýtur að mega spara á þann hátt, og frekar en með öðrum sameiningum, sem samþyktar hafa verið. Annars sje jeg ekki ástæðu til að fara frekar út í þetta að sinni.

Svo sem kunnugt er, má ekki gera neina ályktun í sambandi við fyrirspurnir, en hv. fyrirspyrjendur hafa lýst yfir miklu trausti á stjórninni til þess að kippa hjer í lag og spara fje landsins í þessu starfsmannahaldi. Jeg verð að segja, að jeg ber lítið traust til hæstv. stjórnar í því efni, og að vísu yfirleitt í öðrum efnum, og það því fremur sem lítil von er um, að mikið geti sparast í þessu efni, og hæstv. stjórn hefir gefið mjög óákveðin loforð um það. Hefir hún sagt, að hún vilji koma launum þessara manna í samræmi við laun embættismanna ríkisins? Ekki hefi jeg heyrt neitt í þá átt. Jeg hygg það oftraust, ef hv. fyrirspyrjendur vænta nokkurs af hæstv. stjórn í þessa átt.