07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1775 í B-deild Alþingistíðinda. (3439)

62. mál, kosningar í bæjarmálefnum Reykjavíkur

Flm. (Jakob Möller):

Jeg geri ráð fyrir, að ekki muni þurfa langar umræður um þetta mál, þar sem ræðurnar um síðasta mál snerust í raun og veru að nokkru leyti einnig um þetta frv., þó að það hafi ekki verið nefnt fyr en allra síðast. Jeg skal játa, að þetta frv. snertir fremur en hitt samræmingu á löggjöfinni um málefni kaupstaðanna, og er óviðurkvæmilegt, að sömu ákvæði skuli ekki gilda um alt landið í þessu atriði. En væntanlega verður frv. athugað í nefnd, og þó að ekki liggi fyrir frv. um allsherjar samræmingu í þessu efni, mun nefndin auðvitað haga tillögum sínum eftir því, sem hún vildi leggja til, ef um allsherjar samræmingu væri að ræða. Auðvitað er það á valdi væntanlegrar nefndar að gera brtt. við frv., eða ef hún vill bera fram nýtt frv. um kosningarrjett til sveitarstjórna, eins og hún gæti í sambandi við hitt frv. komið með brtt. um tryggingu gegn því, að misbeitt sje rjetti sveitarfjelaganna til að leggja útsvar á utanhjeraðsmenn. Jeg skal játa, að þess geti verið þörf, en jeg sje ekki, að það hljóti að vera svo umsvifamikið að koma slíkri tryggingu í lög, að nefnd geti ekki tekið það til íhugunar.

Jeg skal að svo stöddu ekki orðlengja um málið, en leyfi mjer að mælast til, að frv. verði greidd gata til. 2. umr. og að því verði vísað til allshn., þegar þessari umr. er lokið.