19.03.1924
Neðri deild: 27. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í C-deild Alþingistíðinda. (3470)

93. mál, botnvörpukaup í Hafnarfirði

Frsm. (Ágúst Flygenring):

Að því er snertir tillögur háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), þá nenni jeg ekki að svara þeim sjerstaklega. Hans skoðun í þessu máli er svo gagnólík minni skoðun, að þar getur ekki verið að ræða um samkomulag. Hann vill leggja alla hluti undir bæjarstjórnir eða þá sjálfa ríkisstjórnina. Tillögur hans eru því allar aðeins spor í þjóðnýtingaráttina, sem jeg á engan hátt get aðhylst. Háttv. þm. Str. (TrÞ) segi jeg það, að mín skoðun er alveg hin sama í þessu málinu og þegar jeg hjer um daginn bar fram hjer í hv. deild frv. um undanþágu frá fiskiveiðalöggjöfinni, að jeg álít, að það geri svo lítið til og hafi svo að segja engin áhrif á fiskmarkaðinn, þótt bætt sje við 6 togurum í Hafnarfirði; allra síst þegar svo var, eins og jeg lýsti þá yfir, að þeirra fáu skippunda, sem þessi skip mundu afla, gætti svo sáralítið á fiskmarkaðinum í Ítalíu, eða sem svaraði ½ kg. á mann þar á ári. Það er annars furðu hlægilegt, að háttv. þm. geti ekki gert sjer grein fyrir, hversu lítið munar um þetta á markaðinum yfir höfuð. Jeg tók það þó skýrt fram í umr. Um hitt frv., að þessi atvinnuvegur verður að hafa eðlilegan framgang; ef við stöndum í stað, verður það til niðurdreps, eigi aðeins Hafnfirðingum, heldur og allri þjóðinni. Það er því óhjákvæmilegt fyrir okkur að auka atvinnuvegina. En hvað togaraútgerðina í Hafnarfirði snertir, þá er hún eðlileg afleiðing af því, sem jeg hjelt fram við umr. um hitt frv., að hoppað mundi verða yfir þennan sjálfstæðismúr, sem við höfum bygt utan um okkur með fiskiveiðalögjöfinni, en því bar jeg það frv. fram, að jeg vildi, að þetta væri mönnum frjálst, og ekki eins og nú verður gert, að gengið verður á snið við lögin, án þess að við getum við því gert. Það munu ekki aðeins koma 4 skip til Hafnarfjarðar, heldur fleiri. Þetta stafar af því, að við höfum ekki sjálfir hingað til getað skapað nóg verkefni handa fólkinu, þar nje annarsstaðar í landinu. Þessi ríkissjóðsábyrgð er það minsta, sem við getum gert til þess að styðja viðleitni manna í Hafnarfirði til þess að eignast sjálfir skip til fiskiveiða. Þetta er það allra minsta, sem Alþingi getur gert til viðreisnar þessum atvinnuveg, og jeg álít það hreint og beint vera blett á hinu háa Alþingi, ef það gerir þetta ekki. Jeg held því enn fram, að ef við viljum halda fast við þessi lög um að banna erlendum mönnum fiskiveiðar hjer, verðum við að taka afleiðingunum af þeim. Og það er ekki hægt að gera annað við þessu, en að styðja að því, að innlendir menn geti neytt þessara sjerrjettinda sinna og þannig komið í veg fyrir, að lögin verði ella brotin. Verður þá auðveldast að smeygja sjer út úr vandræðunum með því að veita þessa ríkissjóðsábyrgð, ef fje er ekki til, þessu til styrktar, enda eina ráðið, eða sú einasta tilraun, sem þingið getur gert eins og stendur.