15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1161 í B-deild Alþingistíðinda. (417)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Frsm meiri hl. (Jón Þorláksson):

Jeg get fyrir hönd meiri hl. fjhn. verið fáorður, því að talsvert greinilega er frá málinu skýrt í nál. á þskj. 114, og býst jeg við, að allir hv. þdm. hafi kynt sjer það.

Fyrst er að geta þeirrar niðurstöðu nefndarinnar, að til þess að komast hjá tekjuhalla á yfirstandandi ári þarf að útvega ríkissjóði tekjuauka, sem nemur 1½ milj. kr. Og þar sem ráðstöfun í þessa átt getur ekki náð nema yfir þrjá ársfjórðunga, þarf tekjuaukinn að samsvara því, að hann gæfi af sjer 2 milj. kr., ef hans nyti við eitt ár, eigi hallinn að vinnast upp.

Í nál. eru einnig taldar fram tölur, sem sýna, hvernig gengisviðaukinn skiftist á tolla á munaðar- og nauðsynjavörum, og skiftist hann þá að sjálfsögðu í rjettri tiltölu við núverandi tolla þessara vara. Þar sem aðflutningsgjöldin nema nú um 3 milj. kr. á ári, þá myndi gengisviðaukinn nema ¾ milj. kr. Um af þessum upphæðum fellur á nauðsynjavörur.

Mjer er óhætt að segja það fyrir hönd alls meiri hlutans, og jafnvel hv. minni hluta líka, að okkur er óljúft að gera nokkrar hækkanir á tollinum á nauðsynjavörum, þótt jafnvel sje aðeins á pappírnum, en þar sem hinsvegar verður að líta svo á, að óhjákvæmilegt sje að afla landssjóði mikilla tekna, en menn sammála um að gera ráðstafanir til að hindra innflutning á ónauðsynlegum vörum, virðist hæpið að byggja allan tekjuaukann á ónauðsynlegum vörum eingöngu. Nefndin sá því ekki annað ráð eða leiðir en aukin aðflutningsgjöld, enda er þessi gengisviðauki ekki raunveruleg hækkun á sannvirði tollanna, heldur aðeins tilraun til þess að láta ekki ríkissjóð bíða einan tjón af þeim halla, sem gengisfallið veldur. Eins og vitanlegt er, gerir gengisfallið það að verkum, að útlendar vörur hækka um það krónutal í verði, sem svarar gengislækkuninni, því innkaupsverð og flutningsgjöld eru reiknuð og greidd í erlendum gjaldeyri, og þegar þessi verðhækkun kemur hvort sem er fram á nauðsynjavörunum, munar minstu, hvort sá hluti verðhækkunarinnar nær og til tolla þeirra, er á vörunum hvíla, því að þessar vörur hafa hingað til verið tollaðar mjög lágt; t. d. nemur gengisviðaukahækkunin aðeins 15 aurum á hvern heilsekk af kornvöru (100 kg.). Munar mest um hann á kolum og salti.

Eins og gerð er grein fyrir í nál. og óþarft er að lýsa yfir, þá er það í sjálfu sjer ekki neitt fagnaðarerindi, að flytja eða styðja tillögu um tekjuauka fyrir ríkissjóð, þar sem hann fæst ekki nema með því, að landsmenn borgi og álögur þeirra sjeu þyngdar á einhvern hátt. Og að menn, þótt þeir viti, að landsmönnum er þegar ofþyngt með sköttum og gjöldum, ganga samt að þessu frv., þá kemur það af því einu, að brýn og bráð nauðsyn ber til að rjetta við fjárhag ríkisins. Nefndin er öll sammála um, að til frambúðar sje heppilegra að fara þá leið, að draga eins og frekast má verða úr útgjöldum hans, heldur en að leggja á nýja skatta. Og sjerstaklega vil jeg árjetta það, sem tekið er fram í nál., að til þess er ætlast, að sú stjórn, sem með völdin fer, gæti ýtrasta sparnaðar á sjerhverju sviði við framkvæmd fjárlaganna og annara laga og freistist ekki til neinnar tilslökunar í því efni, þó að einhver tekjuauki kunni að nást með þessu frv. og öðrum. En nefndinni er hinsvegar ljóst, að í fljótu bili verður ekki viðkomið slíkri niðurfærslu á útgjöldum ríkissjóðs, að komist verði hjá að auka eitthvað álögurnar, eins og gerð hefir verið grein fyrir.

Jeg hefi eiginlega ekki öllu meira að segja að svo stöddu fyrir hönd meiri hlutans, en frá mínu sjónarmiði, sem er dálítið öðruvísi en hv. meðnefndarmanna minna, get jeg bætt því við, að jeg hefði talið eðlilegra, að lengra hefði verið farið en stjfrv. gerir ráð fyrir. Jeg hefði viljað, að tollar á ónauðsynlegum vörum eða miður nauðsynlegum væru innheimtir með fullum gengismismun, eða með gullgengi. Þetta byggi jeg sjerstaklega á því, að sumir aðrir tekjustofnar landssjóðs, sem eru tilfinnanlegri fyrir menn en aðflutningsgjaldið, eru innheimtir með gullgengi. Svo er um útflutningsgjaldið, sem nú var verið að samþykkja að framlengja enn um eitt ár, en það er 1% af verði vörunnar, og hækkar því að krónutali jafnt því, sem krónan fellur. Annar stór tekjustofn er það, sem innheimtur er eftir talsvert harðari stiga en það, að hann fylgi gullverði; það er tekju og eignarskatturinn. Eftir því sem gengið fellur, verður krónutal þessara tekna og eigna hærri en ef gullverð gengisins hjeldist. En þar sem tekjuskattur er goldinn eftir hækkandi stiga, kemur hann því þyngra niður á gjaldendunum sem gengið fjelli meira. Væri krónutalan tvöföld við raunverulegt gildið, yrði skatturinn þannig hærri en tvöfaldur, og þannig þyngri en það, sem verða myndi eftir gullvirði.

Jeg segi þetta til að benda á, að þegar það er talið mest þjá land og þjóð, hvílíkur tollur er á innfluttum vörum, þá er það skakt. Nefndin hefir sýnt þeim tollum tillátssemi, samanborið við fyrnefnda skatta, meðan ekki er einu sinni farið fram á að heimta aðflutningstollana með gullgildi.

Hinsvegar viðurkenni jeg þær ástæður, sem ýmsir nefndarmenn færa á móti því, að tollamir sjeu hækkaðir meira, og styðjast við það, að slík hækkun á munaðarvörutollum leiddi til þess, að smyglunarfreistnin yrði of rík. Því vel má vera, að svo færi, og hefi jeg því ekki haldið fram þessum skoðunum í því skyni, að jeg ætlaði mjer að gera brtt. við stjfrv.

En hvað nauðsynjavörurnar snertir, þá njóta þær, þó að stjfrv. nái fram að ganga, ívilnunar um toll vegna gengislækkunar þrátt fyrir það. Verður það ekki vefengt, að sykurtollurinn t. d. verður lægri raunverulega, þótt innheimtur sje með gengisviðaukanum, en þá er hann var settur upphaflega. Vörutollurinn, sem hefir verið ákveðinn síðar og þá settur með hliðsjón af dýrtíðinni, nýtur að sjálfsögðu ekki eins mikillar lækkunar, en þó nokkurrar, þar sem hann er ekki innheimtur með gullgengi.

Jeg skal ekki fara mörgum orðum um afstöðu hv. minni hluta, en að svo stöddu einungis taka það fram, að eftir því, sem jeg fæ skilið nál. hans, beinist hann ekki gegn því, að gengisviðauki sje lagður á munaðarvörur eða óþarfar og miður nauðsynlegar vörur, og ætti því samkv. ástæðum sínum einungis að bera fram brtt. um, að þeir 4 flokkar vörutollslaganna, þar sem nauðsynjavörurnar eru taldar, sjeu undanskildir gengisviðaukanum.

Að endingu vil jeg leyfa mjer að leggja það til, að stjfrv. verði samþykt óbreytt.