15.03.1924
Neðri deild: 24. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (435)

38. mál, gengisviðauki á ýmsa tolla og gjöld

Jón Baldvinsson:

Það voru aðeins nokkur orð til hæstv. atvrh. Hann vill láta líta svo út, sem og er sennilegra í bili, að bankarnir tapi á verðfalli ísl. krónu og fari því ekki neðar með verð hennar en þeir sjeu til neyddir. En spurningin er aðeins: Tapa þeir á verðfalli krónunnar? Margir eru þeirrar skoðunar, að stærstu skuldunautar bankanna græði á því, og geti þannig greitt bankanum skuldir, sem ella væri vafasamt að fengjust greiddar að fullu, og verði því þannig gróði bankanna á þessu sviði hlutfallslega meiri en tap þeirra á verðfalli krónunnar. Þetta var það, sem jeg vildi, að hæstv. ráðherra tæki til athugunar.