25.03.1924
Efri deild: 28. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1235 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

20. mál, kennaraskóli

Jóhann Jósefsson:

Jeg skal ekki lengja þessar umræður mikið, en jeg get ekki látið hjá líða að láta í ljós þá skoðun mína — þrátt fyrir það, þó að jeg sje með þessu frv., — að það þýðir ekkert að vera að fullyrða, að þetta hafi engan kostnað í för með sjer. Það er, eins og tveir hv. þm. hafa sagt, hlutur, sem liggur í augum uppi. Hitt má vel vera, að það sje ekki meiri kostnaður en svo, að það borgi sig að gefa kennaraefnum kost á að læra ensku.

Það eru margir, sem stunda málalærdóm nú í seinni tíð, en það eru hinsvegar fáir, sem læra málin sjer til nokkurs gagns. Þessi málalærdómur er orðinn nokkurskonar faraldur, sem hefir gripið fólkið mjög föstum tökum. Jeg skal játa það, að tungumálanám sje gagnlegt, en til þess þarf þó að læra málin svo, að þau komi að notum í lífinu. En þegar fólk alment fer að hafa mörg mál í takinu, er jeg hræddur um, að námið verði hjá ýmsum lítið meira en nafnið tómt.

Hv. 1. landsk, fór fögrum og hrífandi orðum um gildi alþýðufræðslunnar. Jeg skal ekki bera brigður á það, að hún gerir mikið gagn. En mjer finst samt sá lofsöngur um aukna alþýðumentun, sem vissir menn kyrja altaf, þegar um slíkt er að ræða, geta verið dálítið villandi. Jeg fyrir mitt leyti er ekki sannfærður um, að barnafræðslan sje á þeim mun betri braut nú en hún var meðan heimilin sjálf höfðu meira af henni á sinni könnu, að munurinn sje í rjettu hlutfalli við þann mismun tilkostnaðar, sem orðinn er á þessum málum. Það er að vísu sjálfsagt gott, að til sjeu stórir skólar með mörgum bekkjum og að börnin hafi fullar töskur af bókum, en þetta út af fyrir sig er engin sönnun þess, að vel sjeu rækt kenslustörfin.

Jeg heyri líka sagt, að í sumum stórum barnaskólum sje fyrirkomulagið þannig, að ekki nærri því öll börnin sjeu yfirheyrð í því, sem þeim er sett fyrir undir hverja kenslustund. Og sje svo, geta allir sjeð, hvaða aðhald börnin muni hafa við námið.

Þrátt fyrir þetta ætla jeg að greiða atkv. með þessu frv., því að jeg veit og viðurkenni, að kennaraefnin geti haft gagn af enskunámi, og því muni það borga sig að veita þeim kost á því, þótt einhver kostnaður verði af því.