07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (495)

18. mál, afhending á landi til kirkjugarðs í Reykjavík

Magnús Jónsson:

Jeg hefi skrifað undir nál. meiri hlutans með fyrirvara, vegna þess að jeg álít, að það sje ekki rjett að gera þennan mun á Reykjavík og öðrum stöðum á landinu og er ekki ánægður með að afgreiða þetta mál þannig. Jeg álít það gjald, sem nú er greitt hjer, ekki vera rjettlátt. Hv. 1. þm. Reykv. hefir gert skýra grein fyrir órjettlæti þessa gjalds fyrir þá, sem á rök vilja hlýða á annað borð. Jeg er sannfærður um, að það var óheppilegt verk að afnema legkaup hjer á landi, og tel því rjettast, að það yrði aftur leitt í lög fyrir alt landið. Jeg get ekki fallist á, að það sje óviðkunnanlegt að gjalda fyrir kirkjugröft fremur en margt annað, sem unnið er. Það sjá allir, að ekki verður unt að viðhalda grafreitum, svo sæmilegir sjeu, nema með nokkrum kostnaði, og tel jeg sjálfsagt, að grafreitirnir hafi sjálfstæða tekjustofna og sjeu kirkjunni óháðir í öllu. Það er siður víða, að grafreitir eru notaðir til graftar handa fleirum en sóknarmönnum einum. Jeg þekki dæmi til þess, að grafreitur fámennrar sóknar var mjög notaður af annari fjölmennri sókn, vegna þess að menn kusu sjer fremur leg þar. Tel jeg því rjett, að menn sjeu látnir greiða fyrir legstaði sína og að grafreitirnir fái að njóta tekna af þessu. Jeg get alls ekki fallist á, að það sje svo flókið mál að innleiða legkaup fyrir alt landið, að það verði ekki gert á þessu þingi. Mjer finst málið svo nauðaeinfalt. Jeg mun greiða þeirri dagskrá, sem nú er fram komin, atkvæði mitt, enda þótt jeg sje þar með ekki fyllilega ánægður, þótt hún verði samþykt.