07.03.1924
Neðri deild: 17. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1246 í B-deild Alþingistíðinda. (497)

18. mál, afhending á landi til kirkjugarðs í Reykjavík

Tryggvi Þórhallsson:

Mál þetta hefir borið nokkuð á góma í fjvn., og hefir þar verið rætt um það, hvernig best yrði lagaður tekjuhalli sá, sem orðið hefir á rekstri dómkirkjunnar. Var hann árið 1921 3400 krónur og árið 1922 alt að 6000 krónum. Hugðist nefndin að laga þennan tekjuhalla með því að hækka kirkjugjaldið, en fjell frá því er hún sá, að tekjuhalli þessi stafaði aðallega frá kirkjugarðinum. Að svo er, sjest ljóslega af því, að árið 1923 er ekki um neinn tekjuhalla að ræða á kirkjugjöldum samkv. upplýsingum frá lögreglustjóranum í Reykjavík, sem hefir á hendi reikningsfærslu dómkirkjunnar, en það ár hafði reikningur kirkjugarðsins verið sjerstakur og settur á landsreikningana. Auk þess voru kirkjugjöldin hærri það ár en árin undanfarin. Hefir nefndin því lagt til, að kirkjugjöldin skuli ekki hækka, með það fyrir augum, að þessi hækkun á legkaupi gangi í gegn. Jeg stóð upp bara til að gefa hv. deild þessar upplýsingar, og skal svo taka það fram, að jeg aðhyllist hærra gjaldið, en gæti þó vel sætt mig við það eins og það er ákveðið hjá hv. minni hl., ef annars er ekki kostur.