20.02.1924
Efri deild: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1250 í B-deild Alþingistíðinda. (512)

12. mál, mælitæki og vogaráhöld

Atvinnumálaráðherra (KlJ):

Frumvarp þetta er lagt fram beint eftir ósk Alþingis í fyrra. Eins og kunnugt er, var löggildingarstofan stofnuð 1917 og hefir síðan haft á hendi löggildingu á mælitækjum og vogaráhöldum. Hefir þetta fyrirkomulag að ýmsu leyti þótt óþægilegt og óþarflega kostnaðarsamt, og því heyrst eindregnar óskir um að leggja niður löggildingarstofuna og fela lögreglustjórum í helstu kaupstöðum landsins starf hennar, svo sem frv. gerir. Var svipað fyrirkomulag áður, og heyrði jeg þess aldrei getið, að það væri ekki fullnægjandi. En löggildingarstofan hefir talsverðan kostnað í för með sjer, og er það eitt ærið nóg í mínum augum til þess, að frv. nái fram að ganga, að það felur í sjer sparnað; leggur niður lítt þarft embætti. Með því að mál þetta var rætt hjer á þingi í fyrra, geri jeg ekki ráð fyrir, að þörf sje á að fara frekar út í það nú, en vænti þess, að frv. verði, að þessari umr. lokinni, vísað til allshn.