20.02.1924
Neðri deild: 4. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 104 í B-deild Alþingistíðinda. (77)

1. mál, fjárlög 1925

Forsætisráðherra (SE):

Það er ekki nema von, að menn furði sig á tekjuhalla þeim, sem orðið hefir á þessu ári, og mun svo hjer sem oftar, að eftir á má sjá ýmislegt, sem betur hefði mátt fara og hægt hefði verið að varast. Allir munu t. d. nú ljúka einum munni upp um það, að rjett hefði verið strax á fyrstu stríðsárunum að gera meira til þess að sjá ríkissjóði fyrir fleiri tekjuaukum. Að vísu var þegar á árinu 1915 bætt við einum nýjum tekjuauka, verðhækkunartolli, sem skyldi gilda til jafnlengdar 1917. Þessi tekjuauki nam

árið 1915 kr. 178201.03

— 1916 — 523588.99

— 1917 — 241734.00.

Á mesta gróðaárinu, 1916, var svo aðeins bætt við smávægilegum tekjuauka. Á aukaþinginu 1917 fluttu þm. í þessari háttv. deild tekjuaukafrv. Mjer er þetta sjerstaklega minnisstætt sökum þess, að síðast á því sama þingi tók jeg við fjár- málastjórninni. Jeg flutti þá ekki nein tekjuaukafrv. hjer; til þess vanst ekki tími. En hinu barðist jeg fast fyrir, að þetta nýja frv. yrði einnig látið ná til ársins 1916, sem var, eins og áður er sagt, eitthvert mesta gróðaárið af öllum stríðsárunum. En til þess að bregða upp mynd af hugum manna þá, skal jeg geta þess, að um þetta nauðsynlega atriði stóð þá hörð rimma. Þessi tekjuskattur gaf þó landinu allmiklar tekjur á stríðsárunum.

Á árinu 1918 flutti stjórnin allmörg tekjuaukafrv., svo sem

1. frv. um stimpilgjald,

2. — um hækkun á vörutolli,

3. — um dýrtíðar- og gróðaskatt.

Hið fyrst nefnda frv. gaf landssjóði þegar á árinu 1918 í tekjur kr. 253231.03 og 1919 kr. 1153176.12, og varð þannig til þess, að niðurstaða ársins 1919 varð óvenjugóð. Þessi sami tekjuauki hefir einnig síðan reynst landssjóði drjúgur. Á árinu 1920 nam hann kr. 1762839,67, en á árinu 1921 kr. 1181990,75, en þá mun einnig hafa verið bætt við stimpilgjaldi af innfluttum vörum, sem á komst á þinginu 1920og síðar verður vikið að.

Vörutollshækkunin gaf einnig álitlegar tekjur, en hvað miklu gróða- og dýrtíðarskatturinn nam hefi jeg ekki getað sjeð, því hann mun hafa verið talinn undir tekjuskattinum.

Árið 1919 var með bráðabirgðalögum, útgefnum í maí þ. á., lagður tollur á síldartunnur og mun hann hafa gefið af sjer um 1 milj. kr. En erlendar þjóðir undu honum mjög illa.

Á þessu sama ári flutti fjhn. að tilhlutun stjórnarinnar frv. um toll á kolum og salti, til þess að vinna upp halla af verslun með þessar vörutegundir. En skattar þessir voru mjög illa þokkaðir og mættu mjög mikilli mótspyrnu. Sama ár var einnig hækkaður tollur á aðfluttum vörum og útflutningsgjald af síld hækkað, og mætti það sömuleiðis allmikilli mótspyrnu. Nokkur tekjuaukafrv. komu þá einnig frá þm., svo sem vitagjaldshækkun o. fl.

Árið 1920 lagði stjórnin fyrir þingið frv. um viðauka við stimpilgjaldslögin, en á því ári í mars ljet jeg af fjármála- stjórninni og núverandi 1. þm. Skagf. (MG) tók við. Þetta frv. var þó samþykt. Á þinginu 1921 voru svo skattalögin endurskoðuð, en eftir niðurstöðu ársins 1923 virðist sem tekjurnar hafi ekki aukist við það.

Jeg hefi nú aðallega dvalið við það tímabil, sem jeg bar ábyrgð á fjármálastjórninni, og mjer virðist, eftir því sem tekið hefir verið fram, að óhætt sje að fullyrða, að stjórnin hafi á því tímabili verið vel vakandi yfir því að afla landssjóði tekna. En víst er um það, að ekki var það vinsælt að berjast fyrir tekjuaukum þau árin, og mörgum þótti þeir vera æðinærgöngulir atvinnuvegunum. Og jeg get ekki í því sambandi stilt mig um það, að vitna í ræðu, sem andstæðingur minn, hinn góðkunni ágætismaður Pjetur Jónsson, fyrv. ráðherra, flutti um leið og jeg skilaði fjármálunum úr mínum höndum. Máske þykir einhverjum óviðkunnanlegt, að jeg skuli vitna í hana, þar sem í henni er hrós um fjármálastjórn mína, en þar sem jeg úr öðrum áttum hefi mátt sæta ýmsum hnútum, sem jeg hefi ekki skeytt að bera af mjer, enda ekki ráðið yfir neinum blaðakosti, þá hika jeg ekki við, með leyfi hæstv. forseta, að lesa smákafla úr henni. Ræðan er í Alþt. 1920, B. bls. 226–227:

„Jeg verð að lýsa ánægju minni yfir því, hve hæstv. fjrh. (SE) hefir gefið glögga og greinilega skýrslu um fjárhag landsins. Það er heppileg venja, sem hann hefir tekið upp, að láta þm. í tje á hverju þingi yfirlit yfir tekjur og gjöld síðustu ára, og er síst vanþörf á að geta áttað sig á ástandinu í hvert skifti“.

Jeg minnist á þessi orð í ræðunni til þess að sýna, að jeg leitaðist við af öllum mætti að gera mönnum í byrjun hvers þings kunnugt alt fjárhagsástandið, og held jeg að jeg hafi fyrstur tekið þá reglu upp. — Þá talar þingmaðurinn um áhuga minn á að afla landinu tekna og bætir svo við:

„En þó jeg meti mikils þennan áhuga og geti varla áfelst hæstv. fjrh. (SE) fyrir að bera fram þetta frv., þá er mjer næst að halda, að áhuginn fari að verða um of, eða hæstv. fjrh. (SE) hætti við um of að líta á það eitt, að afla tekna; minna á það, með hvaða móti það er gert. Þó útlit sje fyrir einhvern halla á þessu ári, þá held jeg að ekki sje of djarft teflt, þó hann sje látinn eiga sig til næsta þings“.

Og enn segir svo í niðurlagi ræðunnar: „Hæstv. fjrh. (SE) má ekki taka þessa ræðu mína svo, sem jeg væri að andmæla þeirri fjármálastarfsemi hans og viðleitni til að afla landssjóði tekna, svo að hrökkvi fyrir útgjöldum. Jeg met hana mikils, og jeg er honum sammála um það, að aðalreglan eigi að vera sú, að hvert ár beri sig. En hitt tel jeg vafaatriði, hvort samþykkja eigi varhugaverða tolla, til þess að fylgja reglunni út í ystu æsar“.

Þessi ummæli háttv. þingmanns, sem var allra manna gætnastur í fjármálum, sýna, hvað örðugt var á þessum tímum að átta sig á hinni miklu tekjuþörf, sem var fyrir höndum, og sýnir, hve þeir voru fáir, sem vissu, hvar vjer stóðum.

En þetta er nú aðeins um aðra hliðina, tekjuhliðina. Hin hliðin, útgjaldahliðin, er öllu alvarlegri. — Á árinu 1918 var allmikill tekjuhalli, eins og jeg hafði bent þinginu á, að mundi verða, enda var tekjuaukafrv. stjórnarinnar þá enn ekki farið að verka. 1919 er aftur á móti tekjuafgangur, svo útkoma tímabilsins 1918—1919 verður í raun og veru ekki eins slæm og við hefði mátt búast, — þó líklega ca. 1 milj. kr. tekjuhalli. En frá mínu sjónarmiði var sú gæfan mest, að á árinu 1919 hafði tekist að stöðva tekjuhallann. Er mjer óhætt að segja, að á þinginu 1919 voru þm. mjög stórhuga. Það var eins og öllum fyndist alt fært og mest væri um vert að framkvæma sem mest. Þá komu lög um brúargerðir og húsagerðir, lög um launahækkun embættismanna, sem raunar voru eðlileg og sjálfsögð, og fleira mætti telja. Jeg varaði þá þingið mjög fastlega við tekjuhallanum á fjárlögunum og þeim ýmsu hliðargötum, sem verið væri að búa til, og benti á, að þær götur gætu reynst landinu helst til dýrar. Sagði jeg þinginu það, að með þessu væri grundvöllurinn lagður að margföldum landssjóðsskuldum. Má lesa þessar aðvaranir alstaðar í Þingtíðindunum.

Í stefnuskrárræðu minni í fjárlögunum fyrir árin 1920 og 1921 vjek jeg að fjórum atriðum, sem fylgja bæri:

1. að ná öllu, sem tapast hafði á salt- og kolaverslun, með tollum.

2. að selja vörur landsverslunarinnar eins fljótt og hægt væri, án þess að skaða landsverslunina.

3. að hraða tekjuaukum stjórnarinnar til þess að vinna upp væntanlegan tekjuhalla á árinu 1919.

4. að tryggja, að á móti væntanlegum tekjuhalla árin 1920–1921 komi svo miklar tekjur, að enginn halli verði á þessum árum.

Jeg sagði þá, að ef þetta yrði gert, þá bæri jeg engan kvíðboga fyrir fjárhagnum, en ef þingið ætlaði sjer hinsvegar að greiða tekjuhallann 1920–1921 með lánum, þá færi það gálauslega að ráði sínu og þá færu horfurnar að verða verulega slæmar. (Alþt. 1919, B. bls. 43). Og við 3. umr. fjárlaganna í Nd. sagði jeg meðal annars: „Þetta þing hefir lagt grundvöll til þess, að skuldir landsins, eins og þær voru á undan stríðinu, margfaldast á nokkrum árum.“ (Bls. 319).

Jeg veit, að enginn láir mjer, þó að jeg víki að þessu nú, þar sem mjet á þessu þingi var mjög oft brugðið um afturhaldssemi. En þó að jeg hafi tekið þetta fram. þá ber það þó engan veginn að skilja svo, að jeg með því sje að kasta steini á hið háa Alþingi nje á þá aðra, sem að þessum málum hafa staðið. Aðalorsökin til þess fjárhagshalla, sem vjer með sorg hljótum að horfa á og sem veldur oss mestra áhyggna, er auðvitað hinir óhagstæðu tímar, sem vjer höfum ekki getað varast. Og það eru fleiri þjóðir en vjer, sem hafa sömu reynsluna. Lítum vjer til Evrópu, þá sjáum vjer, að nálega allar þjóðir liggja í fjárhagslegum sárum, og lítum vjer aftur nær, til sjálfra vor, þá sjáum vjer, hversu fjölmargir einstaklingar, hinir gætnustu menn, sem taldir voru hinir bestu fjármálamenn, hafa orðið fyrir hinum ógurlegustu skakkaföllum. Og t. d. Eimskipafjelag Íslands, þetta óskabarn þjóðarinnar, sem átt hefir í stjórn sinni ýmsa þá menn, sem þjóð vor hefir treyst best, það rjeðist í ýmislegt, sem menn nú áfella og ekki skilja, eins og t. d. stórbyggingu, sem því hlýtur að vera ofvaxin. Eitthvað svipað mun vera hægt að segja um bæjarfjelag Reykjavíkur. En einmitt að þetta ástand er ekki aðeins ríkjandi meðal vor, heldur alstaðar í heiminum, sýnir það, hversu erfitt muni vera að finna bjargráðin við hinu fjárhagslega hruni. Viðleitni stjórnarinnar til þess að rjetta við tekjuhallann hjá oss sýnir sig nú í fjárlagafrv. því, sem hún leggur fyrir þingið og hæstv. fjrh. (KIJ) hefir gert grein fyrir með svo miklum skörungsskap. Og þar sem jeg veit, að hjá öllum þorra þm. muni vera einlægur vilji til þess að gera nú eitthvað alvarlegt til þess að rjetta við fjárhaginn, þá vona jeg, að þeir lofi frv. að fara í gegnum þingið með þeim tekjuafgangi, sem á því er. Um breytingar á einstökum liðum þess gerir minna til.

En þetta er ekki nóg; aðrir hlutir eru enn verri viðureignar, nefnilega verðfall íslensku krónunnar. Aðalmeinið er hið lága gengi peninga vorra, og meðan svo er hlýtur fjárhagur lands vors að vera þröngur. Eins og hæstv. fjrh. tók fram, er nú leitað ýmsra ráða erlendis til að lækna gengismeinin, en í raun og veru eru engin önnur ráð til en að gera innflutninginn minni en útflutninginn. Jeg hefi hingað til eigi verið mikill innflutningshaftamaður, en ef engin önnur ráð finnast til þess að rjetta fjárhag vorn, skal jeg nú standa fast með þeim. Vegna þess að bankarnir hafa á ýmsan hátt dregist hjer inn í umræður, skal jeg með ánægju nota tækifærið til þess að láta þess getið, að báðir bankarnir vinna nú saman í mikilli eindrægni og leitast við að aðstoða hvor annan í því að ráða fram úr fjárhagsvandræðunum. Bönkunum hefir verið ámælt fyrir lækkun gengisins. Jeg álít þau ámæli ekki rjettmæt. Það get jeg upplýst, að bankarnir hafa gert mikið til þess að halda genginu uppi og tap þeirra á gjaldeyri síðasta ár mun nema mörgum hundruðum þúsunda. Bankarnir eru á þeirri skoðun, að gera þurfi einhverjar alvarlegar ráðstafanir til þess að stöðva gengið, og þeir ráða til innflutningshafta í einhverri mynd. Þess má geta, að Landsbankinn hefir nýlega tekið um 200 þús. sterlingspunda lán í London, með ábyrgð ríkisstjórnarinnar, og er það ætlað til styrktar atvinnuvegunum. Vakti það fyrir bankanum að gera nú alvarlegar ráðstafanir til þess, að þetta yrði seinasta lánið, sem hann þyrfti að taka.