31.03.1924
Efri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1584 í B-deild Alþingistíðinda. (862)

100. mál, verðtollur

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg hefi litlu við að bæta út af ræðu hv. 5. landsk. (JJ). Að því er snertir brtt., þá er jeg búinn að tala um alt nema skófatnaðinn. Hv. þm. vill tolla venjulegan skófatnað úr skinni, til þess að hjálpa efnamönnunum til að spara. Er jeg mjög hræddur um, að það mistakist. Það þarf meira til þess að breyta tísku manna en verðhækkun. Jeg held t. d., að þessi heimilisfaðir með 800 kr. ársútgjöld til skófatnaðar ætti erfitt með að standast útgjöldin, ef till. minni hl. næði fram að ganga. Mundi hún áreiðanlega hjálpa þeim manni lítið. Annars virðist mjer skjóta hjer nokkuð skökku við, þar sem hjer koma úr sömu áttinni 2 till. — önnur til þess að íþyngja mönnum með sköttum, en hin til þess að ljetta af þeim skattabyrðinni. Hvað dúkana snertir, sem unnir eru erlendis úr íslenskri ull, þá skal jeg geta þess, að meiri hl. fjhn. Nd. lítur svo á, að þeir falli ekki undir tollákvæðið. Þeirri spurningu hv. þm., hvort jeg muni verða fylgjandi þessum 20% verðtolli á fyrirliggjandi vörur, get jeg ekki svarað fyr en jeg sje frv. En jeg skal taka það fram, að jeg hygg, að frv. fari í gagnstæða átt við það, sem jeg álít rjett. Hafði jeg hugsað mjer, að stjórnin gerði ráðstafanir til þess, að fyrirliggjandi vörur hækkuðu ekki, nema hentugt þætti að jafna með því verð þeirra og vara, er síðar koma til landsins. Er það ljóst, að það er mjög erfitt að koma í veg fyrir slíka verðhækkun, þó að jeg hinsvegar búist við, að kleift verði að líta eftir því, að nauðsynlegustu vörutegundirnar verði ekki settar upp.