31.03.1924
Efri deild: 34. fundur, 36. löggjafarþing.
Sjá dálk 1587 í B-deild Alþingistíðinda. (865)

100. mál, verðtollur

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það eru örfá orð með brtt. minni á þskj. 270. Jeg stend hjer ein uppi með hana, en á bak við mig standa fjölmargar konur og kvenfjelög hjer í bæ og víðar. Í skránni á þskj. 253 yfir vörurnar, sem eiga að sæta þessum háa tolli, eru nokkrar tegundir, sem engri húsmóður er unt að vera án. En með því að mjer hefir ekki unnist tími til þess að ræða þetta mál nægilega með konum þeim, sem þegar hafa látið óánægju sína í ljós yfir hinum nýju tollákvæðum, læt jeg mjer nægja í brtt. minni að bæta við örfáum en ómissandi vörutegundum, eins og t. d. blautsápu, garni allskonar til heimilisiðnaðar og nýju grænmeti.

Jeg býst ekki við, að jeg þurfi að tala langt mál fyrir þessari brtt., því jeg geri ráð fyrir, að hv. deildarmenn og allir, sem heyra þessar vörutegundir nefndar, muni fallast á, að þær eru hverju heimili nauðsynlegar. Þegar jeg las þskj. 253, þar sem taldar eru upp þær tegundir, sem undanþegnar skulu vörutollinum, sá jeg m. a. „bambus“ og „bast.“ Jeg varð steinhissa. Vitanlega eru þessar vörutegundir notaðar af sumum til heimilisiðnaðar, en það er svo hverfandi, að vel hefði mátt sleppa að undanþiggja þær. En vörum eins og garni og tvinna, sem ekkert heimili, hvorki fátækt nje ríkt, má án vera, þeim var gleymt. Þá er sápan. Að vísu er sápugerð hjer í bæ, og hefir verið bent á það. En hún er á byrjunarstigi, og jeg efast um, að framleiðslan geti fullnægt eftirspurninni hjer í bænum, hvað þá heldur þörfum allra landsmanna. Væri illa farið, ef þetta yrði til að draga úr hreinlæti fólks. Sápan, sem hjer er framleidd, er að mínu áliti ekki eins góð og útlend sápa, sem seld er hjer fyrir sama verð, eða jafnvel lægra. Jeg hefi reynt hana í kvennaskólanum, en við höfum orðið að hætta að nota hana, vegna þess, að kostur var á miklu betri sápu útlendri, enda fyrir lægra verð. En jeg vona, að sápugerðinni hjer á landi fari fram, og að það verði alls ekki til að setja fót fyrir verksmiðjuna, þó blautsápa sje undanþegin.

Læknar mæla mjög eindregið með notkun grænmetis, og allur fjöldi fólks hjer í bæ, sem á síðustu árum hefir átt kost á grænmeti, getur ekki sætt sig við, að það komi undir toll, svo aðeins efnamönnum verði kleift að kaupa það. Grænmeti er þýðingarmikil fæðutegund. Það er mjög holt og einnig mikil búdrýgindi að því.

Þá hefi jeg gert grein fyrir þessum 3 tegundum, sem aðallega eru teknar fram í brtt. minni við brtt. minni hl. Annars vil jeg lýsa því yfir, að jeg skil það fullkomlega, að eins og fjárhagur ríkisins stendur nú, er ekki hægt að loka augunum fyrir nauðsyninni á auknum tekjum í ríkissjóð. En mjer finst sanngjarnt, ef undanþágur eru gerðar á þeim tegundum, sem nefndar eru á þskj. 259, að þá verði einnig veitt undanþága á þeim vörutegundum, sem till. mín fer fram á.