23.03.1925
Neðri deild: 40. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Jeg var að efast um, hvort jeg ætti að taka til máls við þessa umr., hvort jeg ætti að hafa fyrir því að fara í eldhúsið. Það virðist hægt á hverjum tíma að finna að aðgerðum hæstv. stjórnar, og hefi jeg ekki þótst láta það liggja í láginni. En það er gott, að við þessa umr. er hægt að drepa á fleira en ella, er enginn er nauðbeygður til þess að halda sjer við eitt mál, en getur tekið ýms óskyld mál til meðferðar. Jeg vildi því nú koma með nokkrar athugasemdir og fyrirspurnir til hæstv. stjórnar.

Sú fyrsta er út af þeim umr., sem orðið hafa bæði hjer og í blöðunum út af því, að hæstv. stjórn dró svo á langinn að stofna búnaðarlánadeildina, þrátt fyrir samþykt laganna 1924. Jeg ætla ekki að fara út í það, hvort það hafi verið heppilegt út af fyrir sig að ákveða, að búnaðarlánadeildin yrði stofnuð, eða hvort hún myndi koma landbændum að miklu gagni eða ekki, þótt jeg geri heldur ráð fyrir, að hún yrði þeim til liðs. En jeg ætla að ræða þá hlið málsins, sem veit að Alþingi og þjóðinni. Má ekki látið það óátalið, þegar hæstv. stjórn ætlar að traðka vilja þingsins og hindra framkvæmd samþyktra laga. Það er algerlega að brjóta þjóðræðið. Hugsum oss, að hæstv. stjórn hefði haft meira ráðrúm, ef það hefði komist á, sem flokkur hennar virtist hafa á stefnuskrá sinni við kosningarnar, að fækkað væri þingum, þannig að þau yrðu aðeins haldin annaðhvert ár. Ef svo langt liði á milli þinga, mætti eftir þessu búast við, að ýmislegt öðruvísi yrði um ýmsar framkvæmdir en þingið ætlaðist til, ef íhaldsstjórn væri við völd. Því hún hefir nú sýnt það þetta ár, sem hún hefir með völdin farið, að henni er ekkert kappsmál að framkvæma vilja Alþingis, ef hann er henni á móti skapi. Það stóð ákaflega hörð barátta fyr, þegar þjóðin var að heimta yfirráðin yfir málunum, um það, hvort ráða ætti, þjóðin eða fámenn klíka. En þegar nú með almennum kosningarrjetti er búið að fá þjóðinni ráðin í hendur, þá koma menn á ný og vilja skjóta sjer undan að framkvæma vilja þjóðarinnar. Er slíkt óhafandi. Það mætti heimfæra fleiri mál til þessa en búnaðarlánadeildina, en hún er skýrasta dæmið um, hvernig hæstv. íhaldsstjórn traðkar á vilja Alþingis. Og þó hún væri sett á stofn viku fyr en þing kom saman í vetur, þá marka jeg það ekki mikið, því að jeg er þess fullviss, að ef sú óheillatill. hefði verið samþykt, að halda þing aðeins annaðhvert ár, þá hefði stofnun deildarinnar dregist í tvö ár. Í tvö ár hefði þá vilji þingsins verið hundsaður af hæstv. íhaldsstjórn. Benda mætti og á bannmálið. Hvernig hafa þau lög verið framkvæmd ? Hefir ekki vilji þings og þjóðar líka sífeldlega verið hundsaður þar? En í þessu tilfelli um búnaðarlánadeildina er svo beinlínis gengið á móti og brotin sú grundvallarregla þingræðisins, að þingið setji lögin og stjórnin framkvæmi þau, að ekki er um annað að gera en að láta hæstv. stjórn fara tafarlaust, ef þingræðið á að haldast. Á slíku sem þessu hlýtur og á Alþingi að taka strangt.

Í þessu sambandi vil jeg minna á, að hæstv. íhaldsstjórn er ekki ein sek um þetta, heldur og fyrri stjórnir. Þær hafa trassað að framkvæma lögin um ríkisveðbankann, sem sett voru 1921. Sje jeg ekki betur en að hæstv. íhaldsstjórn fari þar að dæmi hinna fyrri stjórna; hún virðist ekkert kæra sig um að framkvæma þau lög, heldur reynir að koma sjer hjá því með ýmsum brögðum. Virðist mót á því, að hrúga eigi upp ýmsum smálánsstofnunum til að koma sjer hjá að framkvæma þessi lög. En það er að ganga alveg á snið við þjóðina og Alþingi.

Jeg vil minnast ofurlítið á annað merkilegt atriði, en það er gengi íslenskrar krónu, hvernig ráðstafanir hafa verið gerðar til að fella hana eða halda henni niðri. Menn færa sjer það helst til varnar í þessu máli, að krónan megi ekki hækka of ört, því að gengissveiflurnar sjeu svo hættulegar. Má vera, að svo sje En er krónan fjell, var ekki talað svo mikið um, hve gengissveiflunar væru hættulegar. Og þegar sterlingspundið hækkaði úr 28 kr. upp í 30 kr., og síðan á einum mánuði upp í 33 kr., þá var það ekki kallað stökk nje talið afarhættulegt. En þegar landsmenn afla svo mikið, að óhjákvæmilegt er, að krónan lækki í verði, þá fer hún mjög smástígandi og talað er um, að engar gengissveiflur megi verða. En þegar það var til óhags fyrir verkalýðinn, þá máttu sveiflurnar vera stórar. En verkalýðnum er gróði að því að krónan hækki sem mest. Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú játað það fyrir Alþingi, að hæstv. stjórn hafi gert alveg sjerstakar ráðstafanir til þess að lággengið haldist, eða með öðrum orðum komið í veg fyrir, að verkalýðurinn nyti hagnaðar af góðærinu og þeirri verðlækkun, sem hlaut að koma, ef krónan hækkaði. Er það óverjandi, að maður í ráðherrasessi skuli koma með slíkar upplýsingar og stæra sig af þeim.

Þá kem jeg að íhlutun hæstv. íhaldsstjórnar um starfsemina í landinu. Kemur þar helst til greina brjef það, er hæstv. stjórn og bankarnir hafa sent út til stofnana og sveitarfjelaga, til þess að telja um fyrir þeim sparnað. Er mjer ekki vel kunnugt um, hvernig það hefir verkað alment, en hjer í Reykjavík hefir það verkað á þá leið, að hæstv. íhaldsstjórn hefir með því komið í veg fyrir, að bæjarstjórn Reykjavíkur tæki skatt af íbúum bæjarins til þess að koma nauðsynjamáli í framkvæmd, því, að reisa nýjan barnaskóla. Sumpart með ógnunum og sumpart með fortölum við bæjarstjórn Reykjavíkur hefir hæstv. stjórn komið í veg fyrir að ná nauðsynlegum skatti af borgurunum, sjerstaklega stórgróðafjelögunum. Þó að það væri vel hægt í góðærinu En þetta er í samræmi við aðra stefnu hæstv. íhaldsstjórnar, sem vel kemur fram í frv. stjórnarinnar um tekjuskatt. Jeg efast ekki um, ef hæstv. stjórn situr áfram að hún muni bera fram frv. um, ef slæm ár koma, að undanþiggja stórgróðafjelögin alveg skatti, en ef góðæri verður, að lækka þá enn meira skatt þeirra.

Þá kem jeg að þriðja málinu, sem jeg ætlaði að minnast á, en það eru innflutningshöftin. Þar hefi jeg dálitla sjerstöðu, því að afstaða mín hefir verið sú á undanförnum þingum, að jeg hefi ekki talið rjett að afhenda stjórninni lög um að takmarka innflutning. Og á síðasta þingi taldi jeg slík lög alveg ófær. Raunar eru þau sjerstaklega ill fyrir stjórn, sem vill hlynna að kaupmannastjettinni. Þau eru alveg tilvalin fyrir stjórn, sem vill vera hlutdræg í að veita innflutningsleyfi. Og eins og jeg bjóst við, hefir framkvæmd þessara laga verið eitt samanhangandi hneyksli. Og þó að stjórnin hefði viljað vera nokkurveginn sanngjörn, er það varla hægt, eins og lögin eru úr garði gerð. Margir hafa orðið að leita til atvinnumáladeildar stjórnarráðsins til þess að fá undanþágur frá lögunum, en þær undanþágur hafa verið nokkuð misjafnar. Jeg veit til þess, að það, sem ekki var talið hægt að veita í maí, var veitt hverjum sem vildi í júlí. (Atvrh. MG: Það er eðlilegt). Ekki virðist mjer það eðlilegt, að svo fljótt skipist um, og slíkt hlýtur altaf að koma ranglátlega niður og valda óánægju. En það var tæplega við öðru að búast en svona myndi fara; lögin liggja öll undir úrskurði stjórnarráðsins, og fer þá mest eftir því, hve menn eru ýtnir; eftir því gengur þeim.

Þá vil jeg koma með fáar fyrirspurnir til hæstv. ráðherra. Að líkindum á jeg að snúa mjer til hæstv. fjrh. (JÞ) með þá fyrstu, en hún er sú, sem æðimikið hefir verið rætt um, hvaða tekjuskatt Krossanesverksmiðjan hafi greitt 1924 af tekjum ársins 1923. Sje jeg af norðanblöðum, að miklar deilur hafa um þetta staðið. Haldið er fram, að verksmiðjan hafi greitt skatt af 125 þús. kr. tekjum, en hinsvegar er það fullyrt, að tekjurnar hafi að minsta kosti orðið 750 þús. kr., ef ekki á aðra miljón. Jeg býst við, að hæstv. fjrh. (JÞ) geti ef til vill ekki svarað þessu nú þegar, en jeg skil ekki í öðru en að hann hafi heyrt eitthvað um það og geti í væntanlegu fundarhljei aflað sjer nægilegra upplýsinga til að svara þessari fyrirspurn minni. Mætti það merkilegt heita, ef það sýndi sig eftir alt saman, að auk alls annars hefði framtal verksmiðjunnar ekki verið rjett. Jeg kem með þetta af því að það er svo mikið umtalað. Er ilt, ef verksmiðjan er höfð hjer fyrir rangri sök; nóg er nú samt. En hinsvegar er það stórt fjárspursmál fyrir ríkissjóð, ef ekki er greiddur skattur nema af 125 þús. kr. í stað 750 þús. kr.

Þá vil jeg víkja að hæstv. atvrh. (MG). Svo er mál með vexti, að hæstv. stjórn mun sem að undanförnu hafa keypt kol handa stofnunum landsins. Þegar stjórnir hafa gert þetta áður, hefir verið óánægja út af, að gengið hefir verið framhjá Landsversluninni, en einstakir kaupmenn látnir selja kolin. En jeg ætla ekki að víta hæstv. stjórn sjerstaklega fyrir þetta, þótt eðlilegast sje, að um slíkt sje leitað til Landsverslunarinnar. Á síðastl. sumri var og að tilhlutun stjórnarinnar keyptur kolafarmur handa stofnunum ríkisins. En þegar skipið kom til Hafnarfjarðar með kolin, sem ætluð voru Vífilsstaðahælinu, þá neitaði hælið að taka við kolunum, taldi þau svo ljeleg, að þau væru óhæf til notkunar. Síðan mun afgangur farmsins hafa farið til Reykjavíkur, og var mikið um það rætt, hve stjórnin hefði gert ljeleg kaup. Enda verður það að teljast óforsvaranlegt, að stjórnin láti þannig blekkja sig í viðskiftum, að hún lætur selja sjer óþverra, eins og orð leikur á með þessi kol. Er sagt, að þau hafi verið svo ill, að landsstofnanirnar hafi ekki treyst sjer til þess að nota þau.

Nú vil jeg biðja hæstv. atvrh. (MG) að upplýsa, hvað kolin hafi kostað og hvernig hæstv. stjórn hafi losað sig við þau.(Atvrh. MG: Þeim var brent). Svo! Það var þó altalað, er farmurinn kom, að kolin væru ónothæfur salli. Nú, en ef hæstv. stjórn getur hreinsað sig af þeim orðrómi og sýnt fram á, að hún hafi gert góð kaup, er hún auðvitað ekki ámælisverð fyrir þetta. En ef þetta hefir farið í handaskolum, og sjerstaklega ef kolin hafa verið ljeleg eða alls ekki nothæf, þá er hæstv. stjórn aftur á móti ámælisverð.

En því undarlegra er, að svona nokkuð skuli koma fyrir ár eftir ár, þar sem stjórnirnar hafa stofnun við hendina, sem gefið getur upplýsingar og veitt aðstoð við þessi kaup, en sú stofnun er Landsverslunin, sem í mörg ár hefir verslað með kol. Jeg verð að ámæla hæstv. landsstjórn fyrir það að ganga framhjá Landsverslun í þessu máli.

Það er margt, sem til mætti telja, en jeg skal ekki að sinni fara lengra. Skal að lokum draga saman það, sem mjer finst einkum einkenna stjórnina. En fyrst ætla jeg að skjóta því til hæstv. atvrh. (MG), að hann neitaði að svara einni fyrirspurn frá mjer, þegar Krossanesmálið var á ferðinni. Jeg veit ekki, hvort hann er betur við því búinn að svara henni nú. (Atvrh. MG: Það heyrir ekki undir mig). Já, einmitt það. Það er vandratað um þetta ráðherravölundarhús, þar sem hver vísar frá sjer og segir: „Jeg er ekki dómsmálaráðherra“, „jeg er ekki fjármálaráðherra“ o. s. frv. Jeg þarf annars ekki að vera að elta uppi neinn sjerstakan mann. Jeg leyfi mjer þá bara að spyrja hæstv. stjórn, hvaða refsingu Krossanesmaðurinn hefir fengið fyrir að flytja inn í óleyfi vogirnar frægu og fyrir að flytja inn fleiri verkamenn en honum var leyft og fyrir að tilkynna slíkt eigi hjá lögreglustjóranum á Akureyri. Það, sem jeg að lokum vildi draga saman um hæstv. stjórn, er framkoma hennar á þessu þingi. Fyr hefir hún ekki haft tækifæri til að sýna stefnu sína. Nú sýnir hún stefnuna með frumvörpum þeim, sem hún leggur fyrir þingið, 1923 hafði íhaldsliðið, sem þá hjet raunar ekki Íhaldsflokkur, á stefnuskrá sinni að gæta sparnaðar á þjóðarbúinu, og sjerstaklega átti að fækka sem mest opinberum starfsmönnum. Jeg sje nú ekki betur en að hæstv. stjórn gangi algerlega á snið við þetta. Hún leggur hjer fram tvö frumvörp um stofnun nýrra embætta, auk þess sem fleiri eða færri stöður munu vera á uppsiglingu í fjárlögunum. Jeg er ekki að átelja hæstv. stjórn fyrir þetta, vil aðeins benda á, hvernig hún gengur á snið við það, sem flokksmenn hennar sögðu, þegar þeir voru að blekkja kjósendur til þess að kjósa sig á þing. Nú virðist hæstv. stjórn vilja láta stimpla sig sem stjórn fárra efnamanna. Það sýnir tekjuskattsfrumvarpið, hækkun sóknargjalda og nefskattar ýmsir, og síðast en ekki síst frv. um ríkislögreglu. Hún vildi, ef hún hefði vald til, samþykkja ýms þvingunarlög á Alþingi og stofna síðan lögreglu til þess að halda uppi þeim ranglátu lögum. Um sumt, sem er til miska hinum vinnandi lýð, er Framsóknarflokkurinn henni samsekur, t. d. um verðtollinn frá síðasta þingi.

Jeg endurtek það að lokum, að með öllu framferði sínu hefir stjórnin sýnt, að hún er regluleg stjettarstjórn fárra manna. Ljósast vitni þess er tekjuskattsfrumvarpið og frv. um ríkislögreglu.