25.04.1925
Neðri deild: 64. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1872 í B-deild Alþingistíðinda. (1018)

27. mál, Ræktunarsjóður Íslands

Jakob Möller:

Jeg þakka hv. þm. og hæstv. stjórn fyrir, hversu vel þeir hafa snúist við brtt. minni á þskj. 326. Eins og háttv. þm. hafa bent á, þá er með brtt. þessari ætlast til, að sjóðurinn veiti lán til jarðabóta í kaupstöðum. Við 2. umr. kom fram tillaga þessa efnis, en hún fór lengra, náði líka til húsbygginga, og var feld. Þess vegna læt jeg ekki þessa till., er jeg nú ber fram, ná til húsabóta, sem annars hefði þó kannske verið eðlilegast, þegar að öllu er gætt.

Hæstv. fjrh. (JÞ) benti á það að vísu, að hentugra mundi þegar um jarðrækt væri að ræða, t. d. nýrækt, að fá lán til hvorstveggja, ræktunarinnar og byggingar, í sömu stofnun. Þetta getur nú að vísu verið rjett, en þá er þess að gæta, að hjer er aðeins um þessa einu stofnun að ræða, sem lánar til jarðabóta. En ef hinsvegar risi upp stofnun, sem sjerstaklega væri ætluð kaupstöðum, þá mundi þó ekki koma að sök, þó að heimild þessi væri til. Annars er ástæðulaust að tala frekar um það, því eins og nú horfir eru engar líkur til, að slík stofnun sje á uppsiglingu. Jeg þykist heldur ekki þurfa að tala frekar um mína brtt.; allir hafa tekið henni vel, og brtt. annara hv. þm. get jeg að mestu leitt hjá mjer.

Þó vildi jeg mæla með 3. brtt. á þskj. 316, frá háttv. samþm. mínum, 4. þm. Reykv. (MJ). Hún er við 14. gr. og er í tveim liðum, A. og B. Þær eru báðar til verulegra bóta og tryggja sölu vaxtabrjefanna. En hann talaði svo vel fyrir þeim, að jeg hefi þar litlu við að bæta.

Jeg sje ekki ástæðu til frekari málalenginga. Jeg hefi áður lýst þeirri skoðun minni, að jeg álít, að ekki eigi að vera til tvær lánsstofnanir, önnur fyrir sveitir og hin fyrir kaupstaði, heldur eigi þessar tvær stofnanir að verða að einni. Jeg mun því fylgja brtt. hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á þskj. 375, af því að jeg álít, að hún flýti fyrir slíkri sameiningu.