28.04.1925
Neðri deild: 66. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 1959 í B-deild Alþingistíðinda. (1071)

20. mál, verðtollur

Halldór Stefánsson:

Jeg gekk að því í fjhn. að leggja til, að verðtollurinn yrði framlengdur, eins og nú liggur fyrir í till. nefndarinnar, með það fyrir augum, að jeg vildi ekki una því, að allar almennar umbætur þyrfti að stöðva vegna fjárskorts, og væri þó einnig hægt að borga af lausaskuldum ríkissjóðs. Hæstv. stjórn hefir þrásinnis lýst yfir því, að aðalþáttur stefnuskrár sinnar væri að greiða lausaskuldirnar sem örast. Á þetta hafa margir viljað fallast, eða ekki viljað hindra, þó að jeg líti svo á, að nokkur rök muni vera fyrir þeirri skoðun, að eins rjett sje eða rjettara að festa lausaskuldirnar og greiða þær síðan á lengri tíma.

Þegar málið lá fyrir fjhn., þá datt mjer alls ekki í hug, og jeg held fáum öðrum, að stjórnin mundi fara svo gálauslega að ráði sínu að því er tekjur ríkissjóðs snertir eins og raun er á orðin. Síðan hefir það komið í ljós, að stjórnin hefir lagt kapp á að fleygja burt tekjum af tóbakseinkasölunni og lækka skatta af hátekjum, sem samlagt nemur hundruðum þúsunda króna. Og ekki einasta að lækka tekjuskattinn, heldur einnig að gefa stóran gjaldfrest á meiri hluta hans á sama tíma og hrópað er um þörfina á að greiða sem mest af lausum skuldum ríkisins. Þetta eru þó auðfengnari og rjettmætari tekjur en ýmsir innflutningstollar, þar á meðal verðtollurinn á mörgum vörutegundum.

Eftir að þetta er fram komið tel jeg vafasamt, að stjórninni sje eins mikið áhugamál og hún lætur að greiða lausar skuldir ríkissjóðs, og með þetta fyrir augum þykir mjer skylt að athuga, hvort rjett sje að framlengja verðtollslögin eins víðtækt og meiri hl. fjhn. hefir lagt til. Jeg mun telja mjer hjer eftir heimilt að greiða atkvæði með ýmsum tillögum, sem fram eru komnar og fram kunna að koma, um að losa vörur undan þessum tolli.

Hjer á móti tjáir ekki sú rökleiðsla hæstv. fjrh. (JÞ), sem fram kom við umræðurnar um tóbakseinkasöluna, að með þessari afstöðu minni sje brugðið skyldu við ríkissjóð. Fyrst og fremst hittir sú rökleiðsla hans stjórnina sjálfa og Íhaldsflokkinn út af meðferð þeirra á einkasölunni og tekjuskattinum. Og á hinn bóginn er það fullkomin rökvilla, bygð á þeim alkunna þrönga hugsunarhætti, að ríkissjóður sje — ríkið. — Nei, ríkið er fyrst og fremst þegnarnir. Ríkissjóður er aðeins partur af ríkinu. Þetta sjest best á því, að saman getur farið blómlegur hagur ríkissjóðs og örbirgð fjölda þegnanna. Meira að segja er hægt að byggja upp blómlegan hag ríkissjóðs með því að leggja hag þegnanna í rústir. Og tollarnir, eins og þeim er fyrir komið hjá okkur, verka einmitt þannig á afkomu fjöldans. Almennir og háir tollar á allar þurftarvörur almennings, eins og hjer eru, verka eins og morfínið á líkamann: sefa þarfir ríkissjóðs í bráð, en heltaka svo gjaldþolið og almenningshaginn. Og það virðist vera stefna Íhaldsins að færa tollana altaf meira og meira í það horfið.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að brtt. okkar hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ) á þskj. 305, sem fer fram á, að niðursoðin mjólk verði sett undir 10%-flokkinn. Við 3. umr. fjárlagafrv. voru feldar till. frá báðum hlutum fjhn. um að veita nýbyrjuðu innlendu mjólkurniðursuðufyrirtæki í sveit fjárhagslegan stuðning með beinni fjárveitingu. Þessi till. okkar hnígur að því að veita þessu fyrirtæki hálfan stuðning á móts við önnur innlend iðnfyrirtæki, sem starfa í kaupstöðum og þó eru komin yfir byrjunarörðugleikana og hafa undanfarið notið og njóta þess stuðnings, sem verðtollslögin hafa veitt og geta veitt innlendum iðnaðarvörum, sem undir þann toll falla á meðan verðtollslögin gilda. Það getur í raun og Veru ekki heitið svo, að hjer sje um eiginlegan verndartoll að ræða, því eins og menn vita, þá var verðtollurinn ekki settur sem slíkur, heldur, eins og allir okkar innflutningstollar, aðeins til að reita í ríkissjóðinn, þó e. t. v. kunni að hafa verið haft fyrir augum jafnframt, hvern stuðning innlend framleiðsla gæti af honum haft á meðan hann stæði. Og þá er ekki nema sanngjarnt og sjálfsagt, að innlend mjólkurniðursuða fái jafna aðstöðu og aðrar sambærilegar innlendar iðnvörur.

Jeg geri ekki ráð fyrir, að tillaga okkar sæti andmælum eða verði synjað, nema svo sje, að menn líti með þóknun eða vanþóknun á innlend iðnfyrirtæki eftir því, hvort þau starfa í sveitum eða kaupstöðum. En fyrir því geri jeg ekki ráð, að óreyndu. Atkvæðagreiðslan sker úr um það.