08.05.1925
Efri deild: 71. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2016 í B-deild Alþingistíðinda. (1094)

20. mál, verðtollur

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Fjhn. þessarar háttv. þingd. hafði lítinn tíma til þess að athuga þetta frv. eins og það kom frá hv. Nd., en þar var það búið að vera mjög lengi, og var víst dálítið erfitt að fá samkomulag um afgreiðslu þess þar. Nefndin var sammála um það, að eins og frv. kom frá hv. Nd. horfir það til mikilla bóta á lögunum yfirleitt, sjerstaklega þau ákvæði þess, sem miða að því, að tollurinn fari stiglækkandi. Því að nefndin álítur, að þessi tollur megi ekki, að minsta kosti í þeirri mynd, sem hann er nú, vera lengi við lýði. Þó fanst nefndinni ástæða til að gera smábreytingar á tollaflokkuninni, og koma þær fram á þskj 478. Það þarf sjálfsagt ekki að fjölyrða um þær; þær mæla að mestu leyti með sjer sjálfar. Þó skal jeg geta þess viðvíkjandi brtt. nefndarinnar við 1. gr., að nefndinni fanst aldeilis fráleitt að hækka verðtollinn á kjötmeti, pylsum og þess háttar vörum, sem fólk et nauðbeygt til að kaupa svo að segja daglega. Því þó talsvert sje búið til af slíku í landinu og stundum sjeu á boðstólum innlendar vörur af þessu tægi, þá er þó víðsvegar úti um land oft og tíðum skortur á innlendu kjötmeti, og það sýnist því vera nægilega hátt að tolla þessar vörur með 20%, og algerður óþarfi að hækka tollinn á þeim upp í 30%, eins og farið er fram á með frv.

Nefndinni bárust tilmæli frá mörgum stöðum um að leiðrjetta frv. að ýmsu leyti, en hún tók ekki tillit til nema lítils hluta af því, er fram kom, til þess að brjóta ekki um of í bága við hv. Nd. Að því er snertir kaffibrauð, þá gat nefndin fallist á, að sanngjarnt væri að kex væri ekki hækkað í tolli, þar sem það er eiginlega sú brauðvara, sem fólk einna mest þarf að nota og enganveginn getur kallast óhófsvara.

Nefndinni fanst ástæða til að bæta nokkrum vörutegundum við þær, sem falla skulu undan verðtolli, og voru það aðallega húsgögn, hurðir og gluggar. Nefndinni kom sem sagt saman um það, að það væri ekki hægt í rauninni að taki svo mikið tillit til hins innlenda iðnaðar að því sjerstaklega er húsgögn, hurðir og glugga snertir, að ástæða væri til að hafa mjög háan verðtoll á vörum af því tægi.

Jeg skal svo ekki fjölyrða um fleiri brtt. nefndarinnar án þess að tilefni gefist til.