31.03.1925
Neðri deild: 47. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í B-deild Alþingistíðinda. (115)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Það er rjett hjá hv. frsm. (TrÞ), að umsókn um styrk til kvöldskóla verkalýðsfjelaganna kom ekki til hv. fjvn. Hún barst mjer svo seint, eins og jeg skýrði frá á fundi í gær, að hún gat ekki orðið borin undir hv. fjvn. sjerstaklega. En mál þetta er svo einfalt, að jeg hygg, að hv. þdm. veiti ljett að átta sig á því og greiða atkvæði um það, einkanlega þar sem það lá líka fyrir síðasta þingi og var mikið rætt þá.

Hv. frsm. setti till. um styrk til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík í samband við frv. um slysatryggingar, sem nú liggur fyrir þinginu. Jeg lít svo á, að ekki þurfi að bendla málið við þetta frv. Sjóðurinn starfar alveg sjálfstætt. Að vísu er það rjett, að það ljettir af honum gjöldum vegna slysa, ef frv. um almennar slysatryggingar nær fram að ganga. En verkefni hans er nóg samt. Hann heitir, eins og sjest af till., styrktarsjóður, og hann getur haldið áfram að veita styrk í veikindum, eins og hann hefir hingað til gert. Og það er aðalatriðið, að eitthvert fje sje veitt í þessu augnamiði. Eins og menn vita, eru engar sjúkratryggingar til hjer á landi. Frv. um það efni var nýlega á þessu þingi vísað til stjórnarinnar, og getur enginn sagt; hve langt líður þangað til slíkar tryggingar komast í framkvæmd. Hjer er því ærið verksvið fyrir þennan sjóð, þótt slysatryggingarnar nái fram að ganga. Það er því óþarfi að bíða með samþykt till. þangað til frv. er til lykta leitt. En falli till. mín nú, þá get jeg auðvitað beðið með að koma með aðra þangað til útsjeð er um, hversu fer um slysatryggingarfrv.

Þá er lokið að tala um þær brtt., sen jeg ber hjer fram.

Jeg nenni ekki að fara út í frv. yfir leitt. Jeg vildi þó minnast á tvö atriði sem fram komu í ræðu hv. frsm. (TrÞ) Hann fór að tala alment um fjárhag ríkisins og atvinnurekstur landsmanna. Það er annað skifti sem hv. þm. Str. (TrÞ) kemur að því í þessum umr. að skora í hæstv. stjórn að sjá til þess, að íslenski króna hækki ekki meira en orðið er. Ef þetta á að skiljast sem bending frá Alþingi fyrir munn hv. fjvn., að stjórninni beri að halda íslensku krónunni niðri, þá tel jeg slíkt ekki rjetta pólitík. Jeg álít, að íslensk króna eigi að halda áfram að hækka. Enginn neitar því, að á síðasta ári tvöfaldaðist útflutningur frá landinu, og eftir því hefði íslenska krónan átt að rjettu lagi að hækka miklu meira en hún hefir nú gert. Það er því langtum meiri ástæða til þess að finna að því, hve seint íslensk króna hefir hækkað, og miklu seinna en rjett var, enda hefir hæstv. stjórn játað það, að hún hafi gert ráðstafanir til þess að halda henni niðri. Ef hv. þm. Str. (TrÞ) heldur, að það sje hagur fyrir bændur, að krónan hækki ekki frá því, sem nú er, þá held jeg nú, að það sje ekki verulegt hagsmunaatriði fyrir þá, því að flestir bændur afla ekki meira en þeir eyða og þurfa að kaupa. Og ef það stenst nokkurnveginn á, sú innlenda vara, sem þeir framleiða, og sú útlenda vara, sem þeir kaupa, þá er þeim enginn gróði að því, að lággengi krónunnar haldist. Það eru þá aðeins örfáir stórbændur, sem hafa hag af því. Í þessu sambandi vil jeg minna á það, að í Danmörku hafa forsprakkar bænda haft þá skoðun, að krónan ætti ekki að hækka, því að á því töpuðu bændur. En einkum var þetta talið hagkvæmt fyrir stórbændur. Og nú hefir sá maður, sem mest er fyrir bændum, gengið inn á það samkomulag, sem orðið er milli ríkisstjórnarinnar dönsku og þjóðbankans, þar sem svo er um samið, að krónan megi ekki fara niður fyrir ákveðið mark. Jeg held, að lággengið sje lítill ávinningur fyrir bændur. En hins vegar er það vitanlegt. að allur annar vinnulýður landsins tapar stórfje á því, hve íslenska krónan hækkar seint í verði.

Þá var annað atriði í ræðu hv. frsm. (TrÞ), þar sem hann vjek að styrknum til Búnaðarfjelags Íslands. Skildist mjer á orðum hans. að fjvn. hafði afgreitt brjef til stjórnarinnar um það að hækka styrkinn til Búnaðarfjelags Íslands álíka fyrir árið 1925 og nú er lagt til að bann sje hækkaður: og jeg held styrkinn til Fiskifjelags Íslands líka. Jeg er ekki að leggja neinn dóm á það hvort þessi hækkun sje í sjálfu sjer rjettmæt eða ekki. En það er hitt, ef viss hluti þingsins fer að veita fje úr ríkissjóði fyrir utan lög og rjett. virðist mjer slíkt mjög varhugavert. Það hefir tíðkast síðustu ár að semja ekki nein fjáraukalög, og hefir mjer skilist, að ástæðan til þess væri einkum sú, að háttv. þingmenn treystust ekki til þess að hafa hemil á sjer, ef þeim byðist þannig tækifæri til þess að eyða fje ríkisins. En ef hjer á að fara að koma annað fyrirkomulag, þannig að vissir menn leyfi stjórninni svo og svo miklar fjáreyðslur og styrkveitingar, þá er það vissulega öfug leið að draga þannig fjárveitingarvaldið úr höndum þingsins og leggja það í hendur einstöku þingmönnum að gera tillögur um fjárveitingar til stjórnarinnar. Það finst mjer óhæfileg aðferð, ekki síst ef það þykir ekki einu sinni hæfilegt að koma með fjáraukalög. En jeg get bent á það, að ef menn vilja ekki fjáraukalög. Þá má koma með tillögu til þingsályktunar, sem heimili stjórninni nauðsynlegar fjárveitingar. Þá vita þingmenn. um hvaða fjárhæðir er að ræða. En annars er alt óljóst. Á undanförnum þingum hefir stjórnin getað borið fyrir sig brjef frá nefndum eða ummæli einstakra þingmanna eða nefnda í sambandi við aukafjárveitingar. Þetta á að hverfa, því að með því er fjárveitingarvaldið dregið úr höndum þingsins. Ef fjvn. vill veita nú fje á árinu 1925, sem ekki stendur í núgildandi fjárlögum. Þá er Það greið leið fyrir hana að koma með þáltill. um að skora á stjórnina að greiða þetta fje. Með því móti gefst öllum hv. þm. kostur á því að láta uppi álit sitt um fjárveitinguna.