16.04.1925
Neðri deild: 57. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2154 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

16. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Við 1. umr. var um það deilt hjer í hv. deild, hvort meðaltalsregla sú, sem frv. á þskj. 16 vill lögfesta um skattgjald hlutafjelaga, mundi leiða til tekjurýrnunar fyrir ríkissjóð eða ekki. Frá annari hálfu var því haldið fram, að tekjurýrnun yrði töluverð, en hæstv. fjrh. (JÞ) hjelt því fram, að þegar saman kæmu fleiri ár, yrði hún lítil, eða jafnvel engin. Úr þessu ágreiningsefni er að nokkru leyti skorið með nál. meiri hl. fjhn. á þskj. 189, sem sýnir með breytilega áætluðum tekjum útreikning á skattgjaldi hlutafjelags um 12 ára tímabil, eins og skattgreiðslan mundi verða eftir núgildandi ákvæðum laganna og einnig eftir þeirri reglu, sem frv. vill lögfesta. Af þeim samanburði kemur í ljós, að tekjurýrnunin getur orðið mikil, og hlýtur ætíð að verða nokkur, hvernig sem á stendur. Jafnvel álit hv. minni hl. fjhn. á þskj. 213 sýnir líka, að rýrnunin er töluverð, og hefir þó háttv. minni hl. fjhn. valið dæmin með það fyrir augum, að fá skattmismuninn sem minstan og aðeins miðað við 5–6 ára útreikning. Samt sem áður verður niður staðan sú sama, að rýrnunin er töluverð. Það er auðvitað, að útreikningur þessi getur ekki verið algild sönnun, heldur aðeins í þeim tilfellum, þegar eins stendur á og hjer um þær skattskyldu tekjur, sem þar eru áætlaðar. En af því að samanburðurinn hjá meiri hl. er látinn ná yfir svo langan tíma og breytilegt ástand, fer ekki hjá því, að hann sýni nokkurnveginn rjetta útkomu af meðaltalsreglunni. Eftir þeim útreikningi, sem sýndur er í nál. meiri hl. fjhn., verður mismunurinn eða tekjurýrnun ríkissjóðs á þessu 12 ára tímabili hjá fjelagi, sem hefir 400 þús. kr. höfuðstól og breytilegar tekjur, og stundum jafnvel tap, svo sem þar er áætlað, nærri því 34 þús. kr.

Vitanlega stafar þessi tekjurýrnun af því, að þegar meðaltalsreglunni er fylgt, þá lendir skatturinn oftast á lægstu þrepum skattstigans og fer sjaldan eða aldrei yfir 10% af skattskyldum tekjum, þótt í einstökum árum komi fram miklar tekjur, jafnvel 70–80% af stofnfje.

Þrátt fyrir þetta gæti verið ástæða til þess að taka upp þessa meðaltalsreglu, ef með henni ynnist meira rjettlæti í skattaálögum við aðra gjaldþegna en nú er. En því er ekki að fagna, að það fáist með þessu frv., vegna þess að þeir skattþegnar, sem skatt greiða eftir 6. gr. skattalaganna, verða að þola misærið, og bera þá hlutfallslega þyngri skatta. Vegna þessa er augljóst, að með því að lögfesta meðaltalsregluna kemur fram misrjetti gagnvart þeim, sem ekki geta fengið þessa ívilnun og greiða skatt eftir 6. gr.

Að vísu er á það minst í 2. gr. frv., að þessir gjaldþegnar geti fengið að njóta ívilnunar, en það er augljóst, að sú regla verður ekki notuð nema mjög takmarkað, og verður því sárfáum að liði, enda hefir hv. minni hl. fjhn. í sínu áliti lagt mikla áherslu á, að heimildin, sem felst í 2. gr., verði ekki notuð nema með stökustu varúð.

Því hefir mjög verið haldið á lofti í sambandi við flutning þessa frv., að áhættan, sem vofði yfir þessum útgerðarfjelögum, væri svo mikil, að sjálfsagt væru hennar vegna að veita þessa ívilnun. Máttuleiki þeirra til að starfa væri annars svo stopull, að þjóðfjelaginu gæti jafnvel staðið hætta af því, að þau reistu eigi rönd við. Að minni hyggju er alt of mikið úr þessu gert. Jeg hygg, að almenningsálitið sje á alt aðra leið en að þetta sje áhættumesta atvinnugreinin. Jeg held, að öllum sje ljóst, að útgerð smáskipa er mun áhættumeiri. Togaraútgerðin mundi tæplega hafa vaxið svo ört og raun hefir á orðið, ef hún væri ekki tiltölulega örugg atvinna. Með þetta fyrir augum verð jeg að segja, að mjer virðist fátt mæla með því að taka upp meðaltalsregluna og skapa með því misrjetti fyrir aðra gjaldendur í landinu.

Nú er eðlilegt, að spurt verði um það, hve mikilli tekjurýrnun meðaltalsreglan mundi valda fyrir ríkissjóð á þessu ári. Úr slíkri spurningu er ekki auðvelt að leysa í svip, að nokkru leyti vegna þess, að hjer liggur ekki fyrir síðasta framtal útgerðarhlutafjelaganna, og að nokkru leyti vegna hins, að þinginu hefir ekki, svo jeg viti til, verið kunngert, hver sje höfuðstóll þeirra einstöku fjelaga. Þess vegna er ekki hægt að gera glögga áætlun um þetta í svip. En bending er það um, að hjer sje ekki um lítilfjörlegan mismun að ræða á þessu ári, að á þskj. 189 er fyrsta árið miðað við 35% skattskyldar tekjur af 400 þús. kr. höfuðstól. En útkoman á því ári er þá, ef fylgt er þeirri reglu, sem nú gildir, að skatturinn verður 27600 kr. af þess árs 140 þús. kr. tekjum, en aðeins 5933 kr., ef fylgt er meðaltalsreglunni. Að vísu kemur nokkuð af þessum mismun aftur á næstu árum eftir meðaltalsreglunni, en með það fyrir augum, að ræða væri um hlutafjelög, sem hefðu hagnast vel á síðasta ári, og höfuðstóll þeirra væri ekki óeðlilega stór í samanburði við skipafjölda eða útveginn, eins og sumstaðar virðist vera, mætti samt giska á með sterkum líkum, að tekjurýrnun ríkissjóðs yrði af meðaltalsreglunni svo mikil, að skifti hundruðum þúsunda króna á þessu ári.

Af þessum ástæðum, sem jeg nú hefi drepið á, og ýmsum fleiri, leggur meiri hl. fjhn. þess vegna á móti a.- og e.-liðum 1. gr. frv. á þskj. 16. Einnig leggur hann á móti 2. gr. frv., með því bæði að hann óttast, ef hún yrði samþykt í sambandi við 1. gr. óbreytta, að hún myndi ekki leiða til neinna hagfeldra breytinga á því skipulagi, sem nú er, að því er kemur til þeirra gjaldenda, sem greiða skatt eftir 6. gr., en ef þessir stafliðir, a. og e., verða samþyktir, á 2. gr. frv. ekki lengur heima í því. Um aðra stafliði 1. gr., b., c. og d., þarf ekki að fjölyrða; meiri hl. nefndarinnar getur fallist á þá og kannast við, að rjett sje að gefa þá hvöt, sem þar er bent til fyrir útgerðarfjelögin, til að safna í varasjóð, fremur en að skifta arði meðhluthöfum eða verja honum til aukningar hlutabrjefa. Vitanlega má segja, að með þessu sje þó ekki fyrirbygt, að varið kunni að verða ótilhlýðilega miklu af arðinum til hlutafjáraukningar, og vissulega er freistingin til þess ekki tekin á burt með þessu, en það er þó í áttina til tryggingar fyrir útgerðarfjelögin. Auðvitað verður freistingin til að auka hlutafjeð ætíð sterk, til þess að fá skattinn því lægri, eða koma honum á lægri skattþrep, en þess má þó vænta, að þeir gætnari og gleggri menn hagnýti einmitt þau hlunnindi, sem í þessum stafliðum gr. eru boðin, til þess að auka öryggi fjelaganna með öflugum varasjóðum.

Þriðja og fjórða grein frv. eru þess eðlis, að meiri hl. nefndarinnar finnur ekki ástæðu til þess að vera á móti þeim, þótt þær í sjálfu sjer skifti litlu máli. Úr því á annað borð á að breyta skattalögunum, þá virðist það vel forsvaranlegt að nota tækifærið til þess að taka upp um leið þau meinlausu ákvæði, sem í þeim greinum eru, og sem annars getur verið hagkvæmt, að komist inn í lögin.

Að svo komnu læt jeg hjer staðar numið. Jeg þykist ekki þurfa að gera frekari grein fyrir brtt. meiri hl. nefndarinnar á þskj. 189. Þær eru að öðru leyti bein afleiðing þess, sem fram er komið um málið, og. öllum auðskildar, sem annars hafa athugað nál.