06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 624 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

1. mál, fjárlög 1926

Frsm. minni hl. (Bjarni Jónsson):

Jeg hefi þann heiður að vera frsm. að nokkrum brtt.

Er fyrsta brtt. við 10. gr. frv. III,1, að fyrir „skrifstofuhald“ komi: sendiráðsskrifstofu. Jeg skal strax hugga hv. þingmenn með því, að hjer er um enga undirferli nje sviksemi að ræða. Háttv. sparnaðarmenn þurfa ekki að óttast neinar afleiðingar þessa í auraformi, en mjer þótti viðkunnanlegra, að orðum væri svo háttað í frv., að menn sæju, hvaða skrifstofa úti í Kaupmannahöfn það væri, sem ríkið væri að leggja fje til. Það sjá menn, ef stendur „sendiráðsskrifstofa“. En vilji menn endilega fela það, þá geta hv. þm. auðvitað felt þessa till.

Þá er jeg hjer með aðra smátillögu vestan úr Dölum, um tvær símalínur, aðra frá Harrastöðum í Miðdölum að Breiðabólsstað í Sökkólfsdal, en hina frá Stórholti að Skarði á Skarðsströnd. Jeg flutti þessar tillögur við 2. umr. fjárlagafrv., en tók þær þá aftur, því að mjer þótti ekki árennilegt að láta þær komast að þá, því að hv. þingmenn voru þá blóðugir upp til axla og ljetu ófriðlega. Svo hætt var við, að þeir hefðu ekki veitt því eftirtekt, hversu sanngjarnar þessar till. eru. Línan sú hin fyrri er kafli úr samtengingarlínu frá Búðardal að Borgarnesi. Vita það allir, að leggja á síma 3. flokks út með Barðaströndinni, en hann er ekki lengra kominn en að Króksfjarðarnesi. Vænti jeg, að þessi lína verði lögð fyrir afgang af tekjum 3. fl. síma og hitt af öðru fje. En þó þetta fje sje tekið upp í fjárlög, þá er það raunar ónauðsynlegt, þar sem ákvæði eru um þetta annarsstaðar. En Alþingi hefir margbrotið sín eigin lög, og gerir það svo lengi sem 3. flokks símar eru ólagðir. Afgangur af símanum hefir orðið mikill í ár, og verður ekki annað betra gert við hann en að leggja fyrir hann nýja síma, enda nægir hann til þess. Brattabrekka er hættusamur og erfiður fjallvegur, þótt stuttur sje, og liggur sími að öðrumegin, og mætti það oft koma sjer vel, ef vita þyrfti um afdrif manna, að hafa síma að efsta bænum hinumegin brekkunnar. Fullkomin hjálp yrði þetta auðvitað fyrst, er sími er kominn alla leið yfir brekkuna. Ennfremur gerir þessi tengilína mönnum auðveldara fyrir að ná í Vesturland. Myndi það gera símtöl við Norður- og Austurland miklu tíðari.

Hinn síminn er gamall gestur hjer í hv. deild. Var fyrst lofað að leggja hann 1914 og þá ljet landssímastjóri mjer í tje kostnaðaráætlun og landabrjef yfir staðinn, sem síminn skyldi liggja yfir. Þegar svo símanum vestur var haldið áfram eftir 6 ár, þá var hann lagður að Staðarfelli. Á það skal nú reynt, hvort hv. þm. vilja margfalda brigðmælgi sína við mig og Dalamenn.

Svipað er um Skarðssímann að segja. Hefir sími verið lagður yfir fjörðinn að Stórholti, en verslun kaupfjelagsins er í Tjaldanesi. En þar eru ósar og vondur vegur á milli og löng leið til síma. Yrði það mikil og góð endurbót, ef lagður yrði sími þennan spöl, ekki síst með tilliti til læknisvitjana, því að oft er mjög örðug sókn til Búðardals; ekki síst er það erfitt, þegar enginn veit fyrirfram, hvort læknirinn er viðstaddur eða ekki. En vitja má læknis á Hólmavík, ef menn vissu í síma, hvort læknirinn þar er heima. Vona jeg, að háttv. þm. leggist ekki á móti því, að sími verði lagður þarna hið fyrsta, þar sem það bæði getur riðið á mörgum mannslífum og auk þess er hjer um gamalt loforð að ræða. Hafa Dalamenn verið sviknir á þessu í 6 ár.

Þá hefi jeg komið með till. um þriðjung styrks til stúdentagarðs í Reykjavík. Er mál þetta kunnugt hv. deild. Tók jeg þessa till. aftur við 2. umr. fyrir bænarstað stúdentanna, sem hjeldu, að fjvn. hefði gefið sjer loforð í einhverju formi um að taka styrkinn upp við 3. umr., ef frestur yrði gefinn. En það hefir sýnt sig, að þetta var misskilningur, svo að jeg hefi orðið að taka till. upp af nýju. Er þessi stúdentagarður til þess ætlaður að gera stúdentum dvölina hjer við háskólann ódýrari. Þetta er því styrkur til kjósenda sjálfra, þeirra er eiga sonu, sem þeir senda og ætla að senda til að læra. Er ekki aðeins, að slíkur bústaður er miklu ódýrari en þeir nú eiga við að búa, en auk þess er margt fleira, sem ávinst við þetta. Sambúð og samstarf námsmannanna verður miklu innilegra, og má það verða þeim til miklu meiri þroska en nokkur kensla eða kennarar geta veitt. Þarna fá þeir lesstofu og söngstofu og geta fengið að þjóna ótruflaðir löngun sinni í hofi mentagyðjunnar. Þó að Alþingi þyrfti árlega að kosta þessu til fyrir þetta, þá myndi það margborga sig, svo mjög seni mentalíf myndi glæðast við þetta. Er mjer ráðgáta, þegar menn hika við að greiða svona fjárveitinguni atkvæði sitt. En jeg verð nú samt ef til vill að láta mjer lynda, að þetta verði felt í ár, en það verður þá tekið upp á næsta þingi. Er jeg hættur að kippa mjer upp við slíkt, þótt um auðsæ nauðsynjamál sje að ræða. En jeg veit, að :

eftir lifir mannorð mætt,

þótt maðurinn deyi.

Jeg verð líka að sjá fyrir mínum eftirmælum.

Þá hefi jeg lagt til, að Guðbrandi Jónssyni verði veittar 2000 kr. til að safna til og semja íslenska menningarsögu í kaþólskum sið. Þessi maður sendi umsókn til fjvn., en hún var á báðum áttum og brast að lökum hugrekki til að leggja til, að honum yrði veittur styrkurinn, þótt margir væru því fylgjandi. Vænti jeg nú, að jeg hafi hjálpað þeim, svo að þeir geti frelsað sína sál. Mun og enginn efast um, að maðurinn sje vel til starfans fallinn, enda hefir hann og meðmæli próf. Páls E. Ólasonar, Matthíasar fornmenjavarðar Þórðarsonar og fleiri ágætra manna. En hann er maður fátækur og atvinnulaus, og er því sjálfsagt, að ríkið hjálpi honum, til þess að það geti notið hæfileika hans á þessu sviði. Hefir hann áður fengið styrk frá Alþingi til að skrifa um íslenskar kirkjur í kaþólskum sið, og lauk hann því verki á næsta ári og hlaut hið besta lof fyrir. Enn má geta þess, að hann hefir á undanförnum tíma unnið landinu stórkostlegt gagn og ekki hlotið önnur laun fyrir en að vera tafinn frá starfi. Jeg býst nú ekki við, að jeg þurfi frekar að tala um þetta fyrir hv. þm. eða sætum þeirri. Því að væntanlega eru þeir svo vel mentir, að ekki þurfi þeir að heyra af mjer.

Þá hefi jeg enn viljað gefa Alþingi kost á að styrkja útgáfu íslensks vísindarits á tveggja alda afmæli Eggerts Ólafssonar. Fór jeg fram á, að veittar yrðu 6000 kr. í þessu skyni, sem reiknað var eftir áætluðum arkafjölda. Nú er einn þeirra manna fallinn frá, sem lagt myndu hafa skerf til þessa rits, og hefi jeg því lækkað styrkinn, sem því nemur, er hans rúm í ritinu myndi hafa kostað. Það tel jeg víst, að höfundi Búnaðarbálks myndi þykja einkennilegt, ef fulltrúar þjóðar hans sæju eftir þessum aurum, 4500 kr., til að heiðra minningu hans.

Þá hefi jeg borið fram brtt. um styrk til búnaðarfjelaga, að fyrir 10 þús. komi 20 þús. Jeg mun á sínum tíma biðja um nafnakall um þessa till, því að jeg vildi gjarnan; að það sæist, hverjir eru svo óvinveittir búnaðarfjelögum, að þeir vilji ekki unna þeim þessari litlu viðbótar.

Þá á jeg enn eina litla brtt., og er hún í samræmi við ræðu hæstv. fjrh. (JÞ) hjer á dögunum viðvíkjandi annari brtt., er jeg flutti þá. Hann vildi halda því fram, að í orðunum „gildandi ákvarðanir“ væri innifalin þágildandi ákvæði og fyrirheit þingsins um framhaldandi fjárveitingu. En það geta verið til fyrirheit frá Alþingi, sem ekki geta heyrt — eftir vanalegri málvenju — undir gildandi ákvæði, og þess vegna vildi jeg til varúðar setja þetta sem skýringu — og samhljóða skýringu hæstv. ráðherra — „þar á meðal fyrirheitum Alþingis“. meðal þessara gildandi ákvæða. Þetta er alveg eins og hæstv. fjrh. vildi skýra það, aðeins tekið fram með berari orðum, að þessi fyrirheit eigi að felast í gildandi ákvæðum. Jeg býst við. að menn fari ekki að hika við að samþykkja þessa litlu brtt., því að hún kostar ekki nokkurn skapaðan hlut, og enginn þarf að óttast afleiðingar hennar.