24.03.1925
Neðri deild: 41. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 95 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

1. mál, fjárlög 1926

Halldór Stefánsson:

Það er gamall og góður siður að taka nokkra stund við framhald 1. umr. fjárlaganna til þess að minnast ofurlítið á stjórnarframkvæmdir á liðnu ári, og þá sjerstaklega með tilliti til þess, sem hefir þótt miður fara. Það stendur svo sjerstaklega á við þessar svokölluðu eldhúsdagsumr., að ekki er tækifæri til þess með atkvgr. að umr. lokinni að sýna afstöðu sína gagnvart því umræðuefni, sem fyrir liggur, þ. e. stjórnarframkvæmdinni á liðna árinu, því að jeg tel það ekki þar til, þótt atkv. sjeu um það greidd, hvort fjárlögin skuli ganga til 2. umr. Af þessu leiðir, að algerð þögn kynni að vera skoðuð sem samþykki á gerðum hæstv. stjórnar. Þetta er það, sem kemur mjer til að koma snöggvast í eldhúsið og líta í eldhússpegilinn og gera grein fyrir. hvað jeg þykist sjá þar, ef aðrir kynnu að geta sjeð það sama.

Þegar jeg þá lít yfir stjórnarframkvæmdirnar á liðnu ári, finst mjer þar ýmislegt athugavert, og ætla jeg, í stuttu máli aðeins, að gera grein fyrir því, þar sem ýmsir aðrir hafa lýst því nokkuð, en jeg vil komast svo sem hægt er hjá endurtekningum.

Fyrsta einkunnin, sem jeg vil gefa hæstv. stjórn, er sú, að mjer virðist hún hafa verið veik og ístöðulítil gagnvart hagsmunakröfum aðalstuðningsmanná sinna. Því til sönnunar vil jeg þá fyrst vísa til þeirrar stefnu, sem fram hefir komið í stjórnarfrv. Hefir henni verið lýst nokkuð áður af öðrum háttv þm., og skal jeg því ekki fjölyrða um það, en láta nægja að vísa til þess, sem þeir hafa sagt.

Þá vil jeg nefna til framkvæmdina á innflutningshöftunum. Menn muna, að á þinginu í fyrra voru allflestir sammála um, að nauðsyn bæri til þess að beita innflutningshöft um meira en áður hafði verið gert. Um þetta voru ekki mjög skiftar skoðanir, enda þótt það væri ekki einróma álit manna. En svo skiftust skoðanirnar um það, hverjar leiðir skyldi fara að markinu. Jeg og fleiri lögðu til, að framkvæmdirnar yrðu þannig, að sett væru sjerstök lög um höftin, svo að þau væru föst og óhreyfanleg, en stjórnin vildi hafa öll ráð yfir framkvæmdunum, og að líkindinu til þess að geta safnað fylgismönnnm undir sína vængi lofaði hún, að höftunum skyldi verða beitt stranglega og ósleitilega. Við, sem fylgdum því fram, að sjerstök lög væru sett, þóttumst færa góð rök fyrir okkar máli og bentum á það, að stuðningsmönnum stjórnarinnar mundi vera höftin ógeðfeld og þeir mundu vilja fá undanþágu, enda sýndi reynslan, að slík höft kæmu að litlu liði. Við skildum hina erfiðu aðstöðu stjórnarinnar, að standa á móti kröfum sinna manna. Einn fyndinn maður lýsti aðstöðu hennar þannig, að hún væri því líkust, sem hún ætti að standa á Dettifossbrúninni. Spádómurinn rættist; stjórnin reyndist ekki fær um að framkvæma höftin, svo að verulegu gagni kæmi. Mjer virðist hún hafa lent í fossinum.

Það var ekki liðið langt á sumarið, þegar það var orðin almenn vitneskja, að höftin væru illa framkvæmd að flestu leyti. Það var altalað úti um land, að tiltölulega litlar hindranir væru á innflutningi. Flestir fengu það, sem þeir vildu, annaðhvort vegna ístöðuleysis stjórnarinnar eða þeirra eigin kænsku. Margir báðu um helmingi meira en þeir vildu fá. Þeir fengu svo helminginn af því, sem þeir báðu um, eða með öðrum orðum alt, sem þeir vildu. Aðrir báðu aðeins um það, sem þeir vildu, og fengu helminginn. Þetta leiddi til misrjettis. Mjer er óhætt að fullyrða, að þar, sem jeg þekki almenningsálitið úti um landið, gengur það alment í þá átt, að framkvæmdirnar hafi mistekist og að höftin hafi verið eintómt kák, og jafnvel verri en ekkert, þar sem þau hafa leitt til misrjettis á milli innflytjenda, bæði af þessum ástæðum og öðrum, sem jeg hirði ekki að nefna.

Önnur einkunnin, sem jeg gef hæstv. stjórn, er sú, að hún hafi verið ósköruleg sem framkvæmdarvald. Því til stuðnings læt jeg nægja að minna á framkvæmdaleysi hæstv. stjórnar í Krossanesmálinu, en mun þó ekki fjölyrða um það, — það er svo þrautrætt áður, — heldur aðeins vísa til þess, sem þegar hefir verið sagt um það mál. Þá skal jeg, þessum dómi til stuðnings, minna á framkvæmdaleysi hæstv. stjórnar á lögunum um búnaðarlánadeildina. Hún var satt að segja lítið úrræði til að bæta úr lánsþörf landbúnaðarins, þar sem þetta er ekki öllu meira fje en eitt togarafjelag þarf á ári hverju til rekstrarfjár, en því vesalla er af stjórninni að láta ekkert verða úr verklegum framkvæmdum laganna. Því hefir verið borið við, að staðið hafi á afgreiðslu frá Búnaðarfjelaginu, en þá var það líka skylda stjórnarinnar að sjá um, að Búnaðarfjelagið gerði sína skyldu.

Þriðji dómurinn, sem jeg vil kveða upp yfir hæstv. stjórn, er sá, að hún hefir verið óhlífin við almenningshag og skilningslítil á þarfir almennings. Jeg vil því til stuðnings vísa til þess, sem jeg er áður búinn að nefna, sem sje búnaðarlánadeildina og Krossanesmálið. Það lýsir ekki miklum skilningi á hag almennings, að láta engar framkvæmdir verða af þeirri litlu úrlausn, sem fengin var í fyrra með búnaðarlánadeildinni, nje framkvæmdaleysið í Krossanesmálinu um að vernda hagsmuni framleiðenda gegn erlendri ásælni.

Þá vil jeg ennfremur nefna það, að almennar kvartanir hafa komið fram um það, að úrskurðir hæstv. stjórnar um toll skyldu vara eftir verðtollslögunum væru bæði óhlífnir og einhliða, að því leyti, að meira væri litið á þörf ríkissjóðs en það, sem eðlilegast væri eftir anda laganna og til hagsmuna fyrir einstaklinga þjóðarinnar. Verðtollslögin voru heldur ófullkomlega bygð, þegar þau voru samþykt; það þurfti að síma þau til staðfestingar, svo að þau gætu komið fljótt til framkvæmdar. Þau voru þess vegna bygð á vörutollslögunum, til þess að þau gætu verið sem styst. Það var hugsun þingsins, að undan verðtolli slyppu þær vörur, sem væru brýnar þurftarvörur eða gengju beint til framleiðslunnar. Vegna alls þessa mætti ætla, að hæstv. stjórn úrskurðaði frekar eftir anda en bókstaf laganna um tollskyldu einstakra vara, en á því hefir þótt verða misbrestur.

Loks er ein einkunn, sem jeg á eftir að nefna, hvað mjer virðist hæstv. stjórn vera tómlát um virðingu sína, og vil jeg því til stuðnings vísa til Krossanesmálsins. Eftir að það var komið í ljós, að viðkomandi verksmiðja var tortrygð um að nota röng mál, en það eitt kalla jeg röng mál, ef þau taka annað en þau eru sögð taka, og eftir að vitneskja kom um það, að íslenskir menn, þar á meðal stjórnin, hafa orðið að umtalsefni í Noregi út af þessu máli og hallað hefir verið á þá þar, og þegar það kom í ljós, að stjórninni er ekki svo ant um virðingu sína, að hún vilji láta rannsaka þetta mál, eftir þær umræður, sem hjer hafa farið fram, til þess að eiga þess kost að hreinsa sig af öllum ásökunum, þá virðist það benda á tómlæti hennar fyrir virðingu sinni. En hinsvegar tekur hæstv. stjórn fegins hendi áskorun á sjálfa sig um að gera það eitt, sem engin stjórn getur komist hjá að telja skyldu sína.

Jeg hefi farið stutt yfir söguna, af því að búið er að ræða þessi málsatriði svo ítarlega áður, og hefi látið mjer nægja að vísa að miklu leyti til þess, til þess að forðast sem mest endurtekningar.