06.04.1925
Neðri deild: 52. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (134)

1. mál, fjárlög 1926

Jón Baldvinsson:

Jeg hefi af nýju flutt þær 2 tillögur, sem jeg bar fram við 2. umr. og sem þá fengu ekki þann byr, sem þær áttu skilið og æskilegt hefði verið. Á jeg við till. um styrk til kvöldskóla verklýðsfjelaganna í Reykjavík og styrk til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík. Fjellu þær háðar með þeim minsta mun atkvæða, sem orðið gat till. að falli. Flyt jeg þær því aftur, en hefi lækkað fjárhæðirnar að nokkru, þótt mjer þyki leitt að hafa þurft þess og viðurkenni ekki, að jeg hafi farið fram á of háar fjárveitingar. 500 kr. geta til dæmis ekki talist mikið fje á móts við það, sem annars er veitt til skólahalds. Má líta á það, að talin hefir verið þörf að veita fje til að halda uppi fyrirlestrum fyrir almenning. — en hví þá ekki eins að leggja eitthvað af mörkum til kvöldskóla verkamanna, sem allir munu viðurkenna, að geti haft mikið fræðsluverkefni að vinna? Jeg hefi samt orðið að beygja mig, þótt mjer hafi verið það móti skapi, og færi nú upphæðina niður í 400 kr. Leyfi jeg mjer til árjettingar að vísa til skýrslunnar, sem barst raunar of seint í hendur hv. fjvn. um daginn, en sem hún mun hafa nú í hönd um ásamt fleiri plöggum viðvíkjandi þessu máli.

Hin till. er, eins og jeg nefndi, um styrk til styrktarsjóðs verkamanna- og sjómannafjelaganna í Reykjavík. Háttv. frsm. fyrri kafla (TrÞ) mælti víst móti þessu um daginn á þeim grundvelli, að þessi sjóður myndi óþarfur, þar sem í vændum væru lög um almennar slysatryggingar. En þetta er misskilningur og þörfin mikil að ljetta undir með mönnum, sem verða frá vinnu vegna slysa eða veikinda, þótt slysatrygging verði samþykt. Auk þessa einskorðar styrktarsjóðurinn sig ekki við slys, heldur veitir hann mönnum einnig styrk, er veikindi ber að höndum. Hinu háa Alþingi hefir oft verið ljúft að styðja slíka starfsemi og bjarga mönnum með því frá að leita sveitar, og ljetta þá jafnframt undir með sveitarsjóðunum. En eins og allir vita, verður það oft dýrara að láta menn lenda á sveit en að veita þeim styrk til að halda sjer uppi þegar óhöpp bera að höndum. Hefi jeg í samræmi við hina till. lækkað þessa úr 4500 kr. niður í 3500 kr. Finst mjer, að hv. þm. hljóti að vera ljúft að samþykkja svo hógværa tillögu. Þess má ennfremur geta, að verkamenn hafa lagt talsvert á sig fyrir þennan sjóð; þannig greiða öll stærri verkamanna- og sjómannafjelögin til sjóðsins 1 krónu á ári af hverjum fjelaga sinna. Sýnir það sig þó árlega, að aðeins litla hjálp er hægt að veita, á móts við hina brýnu þörf. Hinsvegar mundi slík fjárhæð, sem hjer er farið fram á, veruleg viðbót við styrktarfje sjóðsins, og gæti hjálpað sjóðnum mikið í starfsemi hans.

Fleira segi jeg ekki um þetta að sinni. Jeg vona, að háttv. þdm. sjái, hve till. þessar eru sanngjarnar, og jeg þykist nú, er jeg hefi fært upphæðirnar niður, ekki eiga aðeins vísan stuðning þeirra, sem með þessu voru um daginn, heldur og margra annara hv. þm.