01.04.1925
Efri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2358 í B-deild Alþingistíðinda. (1403)

79. mál, selaskot á Breiðafirði og uppidráp

Frsm. (Eggert Pálsson):

Við 2. umr. gat jeg þess, að landbn. mundi koma með brtt. við þetta frv. til 3. umr., og er þær nú að finna á þskj. 256.

Þá gat jeg þess einnig, í hvaða átt þessar brtt. myndu ganga, svo ljóslega, að jeg held, að jeg þurfi ekki að fara frekari orðum um það atriði nú, en jeg hygg, að þær miði til bóta, og vil því ráða hv. deild til að samþykkja þær.

Í annan stað hafa komið fram brtt. á þskj. 261. Þær eru í rauninni ættaðar frá hv. Nd. Það var farið fram á það við landbn. þessarar deildar fyrir stuttu, að hún tæki að sjer að flytja þessar brtt., en hún vildi ekkert við það eiga, enda þóttist hún hafa gert nóg að því að umbæta frv. þetta fyrir háttv. Nd. Annars verð jeg að álíta, að brtt. á þskj. 261 sjeu ekki allskostar þarfar. Jeg held, að í þessu falli hljóti friðhelgi eignarrjettarins að vera svo vernduð, að mönnum haldist ekki uppi, án víta, að fara í látur annara manna og rota þar sel eða drepa á annan hátt.

Aðaltilgangur brtt. er að fá drápið undir sektarákvæði 2. gr. frv., en þá er þess að gæta, að ef þetta verður samþykt, þá gilda önnur sektarákvæði um dráp í selalátrum á Breiðafirði en annarsstaðar á landinu. Ef nauðsyn bar til, að þessi breyting á sektum næði fram að ganga þá heföi hún átt að koma við frv. til laga um breyting á tilskipun um veiði, sem hjer var nýlega til umræðu, því þá hefðu sömu sektarákvæði gilt um alt land. En af þessu varð nú ekki. Og ef þessi brtt. verður nú samþykt og þetta frv. þannig afgreitt, þá leiðir af því, að sjerstök sektarákvæði gilda um seladráp í látrum á Breiðafirði. Mjer fyrir mitt leyti finst þetta frekar óviðkunnanlegt, en ef mönnum sýnist það vel við eigandi þá get jeg látið mjer það á sama standa.

Annars finst mjer slæmt orðalag á brtt. Þar stendur: „í selalátrum á bannsvæðinu er engum öðrum en eigendum eða umráðamönnum látranna heimilt að rota seli eða drepa uppi“.

Eftir þessu virðast eigendur látranna ekki mega láta aðra drepa sel fyrir sig. Samkvæmt orðanna hljóðan eiga þeir jafnan, ef þeir vilja vítalausir vera, að gera það sjálfir. Vitanlega er það ekki meiningin, að víti liggi við því, að selalátraeigendur láti þjóna sína eða vinnu menn drepa selinn í látrunum, en mjer finst samt sem áður orðalagið óviðkunnanlegt og álít, að betur færi á því, að þar stæði „rota eða láta rota“, eða eitthvað því líkt.