01.04.1925
Efri deild: 44. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2360 í B-deild Alþingistíðinda. (1404)

79. mál, selaskot á Breiðafirði og uppidráp

Einar Árnason:

Brtt. á þskj. 261 eru fluttar eftir beiðni aðalflutningsmanns frv. í hv. Nd. (HK). Honum láðist að koma þessum breytingum að undir með ferð málsins í þeirri hv. deild, en hinsvegar telur hann, sem gagnkunnugur maöur þar vestra, þess fulla þörf, að þessar breytingar verði gerðar á frv.

Mjer skildist hv. frsm. (EP) vilja amast dálítið við þessum brtt., og fæ jeg ekki skilið, af hverjum ástæðum það getur verið. Eins og hann sagði rjettilega, eru brtt. fram komnar með það fyrir augum, að uppidráp komi einnig undir sektarákvæði 2. gr. frv., enda er alls ekki óeðlilegt, að sömu viðurlög sjeu við að rota sel og drepa uppi sem við því að skjóta hann. Fæ jeg því ekki sjeð, að nokkur ástæða sje til að vera á móti brtt.. þó að þær eigi við Breiðafjörð sjerstaklega.

Hv. frsm. (EP) þótti orðalag brtt. óviðkunnanlegt og vildi jafnvel líta svo á, að samkv. till. mættu ekki aðrir en eigendur látranna sjálfir eða umráðamenn þeirra drepa sel á hinu friðlýsta svæði. Þetta er augljóslega ekkert annað en hártogun, því það er alment sagt svo, þegar um bændur er að ræða, að þeir geri sjálfir það, sem þeir láta hjú sín gera. Enda hafa lögfræðingar litið yfir brtt. og ekkert sjeð við þær athugavert, heldur fundist þær rjettmætar og í alla staði formlegar.

Ef 1. og 2. brtt. á þskj. 261 verða samþyktar, þá leiðir samþykt 3. brtt. af sjálfu sjer, en þá þyrfti hv. nefnd líka að taka aftur 4. brtt. sína á þskj. 256.

Annars geri jeg þetta mál alls ekki að kappsmáli. Jeg þykist vita, að hv. þdm. hafi áttað sig á því, hvað hjer er um að ræða, og nenni ekki að deila mikið um slíka smámuni.