30.03.1925
Neðri deild: 46. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2366 í B-deild Alþingistíðinda. (1421)

91. mál, einkenning fiskiskipa

Frsm. (Sigurjón Jónsson):

Þetta frv. er um einkenni skipa í landhelgi, og ákveður það sektir við því, ef einkennin eru ekki nógu skýr, eða ef skipverjar verða berir að tilverknaði í þá átt að dylja merkin. Fyrir utan landhelgina gilda ákvæði samkvæmt alþjóðasamningum um, merking skipa, en innan landhelgi hefir ekki legið sekt við, þó merkin væru í ólagi. Slíkt er ótækt, einkum vegna landhelgisgæslunnar, að hafa ekki nein lagaákvæði um þetta. Frv. þetta, sem hjer liggur fyrir, kemur frá sjútvn. Ed., og hefir sjútvn. Nd. athugað það og er einhuga í því að leggja til við þessa hv. deild, að það verði samþykt. Það er áreiðanlega full þörf á lagasetningu um þetta, einkum í sambandi við landhelgisgæsluna, sem verður örðugri, ef skipum helst uppi að vera merkjalaus eða óglögt merkt.

Það er aðeins ein brtt. (við 4. gr. frv.), sem sjútvn. Nd. leggur til við þetta frv., að sektir fyrir brot gegn ákvæðum þessara laga renni í landhelgissjóð. Nefndin hefir fært þetta í tal við hæstv. dómsmálaráðherra (JM), og hefir hann ekki haft neitt sjerstakt við þetta að athuga. í 3. gr. frv. er gert ráð fyrir, að sektir fyrir brot á einkennislögunum verði ákveðnar í sambandi við sektir fyrir ólöglegar veiðar í landhelgi; — verði því aðeins ákveðin ein sektarupphæð. En eins og allir vita, renna sektir fyrir brot á landhelgislögunum í landhelgissjóðinn, og er því eðlilegast, að sektarfje fyrir hvortveggja brotin renni í sama sjóð, enda munu þessi einkennislög oftast verða brotin af þeim hinum sömu, er brjóta landhelgislögin. En þótt það auðvitað geti komið fyrir, að sektir verði ákveðnar fyrir brot aðeins á þessum lögum, án þess að önnur lög hafi einnig verið brotin, gerir ekkert til, þótt þær sektir fari einnig í landhelgissjóðinn, enda mun þá heldur aldrei verða um háar upphæðir að ræða.

Jeg þykist ekki þurfa að fara fleiri orðum um þetta mál, en endurtek aðeins tilmæli sjútvn. til þessarar hv. deildar um að samþykkja þetta frv.