17.03.1925
Neðri deild: 35. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2420 í B-deild Alþingistíðinda. (1505)

67. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Sigurjón Jónsson:

Það hefir verið tekið fram ýmislegt af því, sem jeg vildi segja, og sjerstaklega nú af háttv. 1. þm. Árn. (MT), hvað snertir fjárhagshliðina. Eins og sýnt hefir verið fram á, er það sanngjörn krafa með tilliti til fjárhagsins, að skifta. Seldar hafa verið 4 jarðir frá prestakallinu, og hefir andvirði þeirra runnið í kirkjujarðasjóð. Er það orðin stór fúlga, sem prestakallið á beinlínis hjá prestlaunasjóði.

Jeg verð að segja það, að mjer finnast orð þeirra hv. þm. Borgf. (PO) og hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) ekki hafa borið vott um traust þeirra á sinni eigin dómgreind. Hjer er hverjum manni ljóst og fullsannað, að frv. sje á fullkominni sanngirni bygt. Innan þessa prestakalls eru 2 læknishjeruð. Það er vansjeð, að nokkur eyrir færi til prestakallsins frá prestlaunasjóði, annað en endurgreiðsla á því, sem sjóðurinn hefir áður fengið frá prestakallinu, þó að skift væri í tvent.

Gjald ríkissjóðs í prestlaunasjóð er yfir 2 kr. á hvern mann í landinu. Ef Ísafjarðarprestakall fengi helming af því, mundi það hafa meiri tekjur en 2 prestar fá.

Það er hreinn óþarfi að vera hræddur við það fordæmi, sem þessi skifting gefi, en komi fram önnur tilmæli um skiftingu prestakalls,- og hafi þau tilmæli jafnmikið til síns máls og allar ástæður sjeu jafnríkar, þá tel jeg sjálfsagt, að einnig það frv. fái að ganga fram. Þarf jeg nú ekki miklu við að bæta, en vil einungis strika undir það, sem hv. 4. þm. Reykv. (MJ) sagði, að Bolungarvík væri nauðsynlegt að fá sjerstakan prest. Starf hans er ekki eingöngu fólgið í þeim prestsverkum, sem Ísafjarðarprestur hefir gegnt og gegnir þar; á hinu er engu síður mikil þörf, að presturinn hafi tíma og tækifæri til þess að starfa fyrir söfnuð sinn annað og meira en sjálf prestsverkin, en eins og nú standa sakir, getur ekki verið þar nema um almenn prestsverk að ræða, þar sem presturinn þjónar jafnframt prestakalli, sem er jafnfjölment og Ísafjarðarprestakall er.