07.04.1925
Neðri deild: 53. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 768 í B-deild Alþingistíðinda. (160)

1. mál, fjárlög 1926

Pjetur Þórðarson:

Mjer fanst það ekki mega minna vera en að jeg ljeti í ljós þakklæti mitt við hv. fjvn. fyrir það, hve vel hún hefir tekið hinni einu brtt., sem jeg átti hjer. Þykir mjer það bera vott um, að nefndin sje sjálfri sjer samkvæm og gæti þess hvorstveggja í senn, að hver fjárveiting sje sanngjörn og að tilsvarandi hagsmuna sje af henni að vænta.

Jeg býst við, að það sje mín sök, er jeg talaði fáein orð í dag, sem hafa gefið hv. þm. Dala. (BJ) tilefni til þess að misskilja þau þannig, að jeg hafi sagt, að hv. þm. hafi ekki talað nægilega skörulega fyrir sínum till., og þó einkum einni, þ. e. styrknum til búnaðarfjelaganna. Hafi verið hægt að skilja orð mín svo, þá hefir það orðið þvert á móti því, sem jeg ætlaðist til. Jeg vildi einmitt halda því fram, að þessi hv. þm. (BJ) talaði allra manna snjallast fyrir till. sínum, enda er hann kunnur að ræðusnild og rökfimi. Ekki vantar það, enda datt mjer ekki í hug að kvarta undan neinu. En hins mun jeg hafa getið, sem hann hefði getað kallað kvörtun, að jeg skildi ekki vel í, hve mikið ósamræmi væri í úrslitum mála og breytinga þeirra, er hann flytti, og hinum skörulega flutningi hans. En það er líklega af því, að mig skorti greind til að skilja það.

Jeg vil þó gera grein fyrir nokkrum atriðum þessu máli viðvíkjandi. Hjer hefir verið rætt um það, hvort styrkurinn til búnaðarfjelaga hafi komið að notum. Jeg viðurkenni, að hv. þm. (BJ) hefir rjett fyrir sjer, er hann sagði, að til þess að hann gæti komið að sömu notum og áður, þyrfti hann að vera þrefalt hærri en till. hans fer fram á. Jeg er kunnugur reynslunni í þessu efni og veit, að þessi styrkur kom áður að mjög miklum notum. En á síðari árum, þegar farið var að skera hann við neglur sjer, hefir hann komið að mjög litlum notum. Það er stundum hálfhlægilegt, þegar 20–25 bændur í einni sveit fá til samans 3–6 lambsverð sem styrk fyrir fjelag sitt. Það mundi sannarlega ekki raska búnaðarframkvæmdum þeirra, þótt styrkur þessi fjelli niður. Jeg álít, að þetta sje hvorki heilt nje hálft, jafnvel þótt upphæðin væri hækkuð upp í 30 þús. kr., og væri betra að fella styrkinn niður ár og ár í bili heldur en að búta hann svona niður á hverju ári.

Annað atriði, sem jeg vildi benda á, er það, að mjer virtist ekki koma að notum þessi rökstudda skoðun hv. þm. Dala. (BJ) um 32. lið á þskj. 290, 2. tölulið. Það er styrkur til að gefa út vísindarit til minningar um Eggert Ólafsson á 200 ára afmæli hans. Jeg er alveg viss um það, að svo má heita, að hverju barni, sem komið er yfir 12 ára aldur, og hverjum manni, sem hefir getað lært venjulegar námsgreinar undir fermingu, er mjög vel kunnug og kær minning þessa ágætismanns, svo að hún er í engri hættu stödd, þótt ekki sje nú farið að gefa út vísindarit til þess að heiðra hana. Jeg er sannfærður um það, að þessi minning er mótuð svo að segja í hvers manns hjarta og á ekki fyrir sjer að þróast betur, þótt þetta vísindarit verði gefið út á ákveðnum degi.

Þá vildi jeg aftur minnast ögn á þennan mismun á rökfimi og málsnild háttv. þm. Dala. (BJ) annarsvegar og úrslitanna á ýmsum till. hans um fjárveitingar hinsvegar. Jeg játa, að jeg finn ekki samræmi þar á milli, og jeg held, að það eigi rót sína að rekja til þess, að þessar till. sjeu ekki á eins miklum og staðgóðum rökum reistar eins og hv. þm. tekst að sýna að ytra útliti með orðum sínum.

Jeg ætla ekki að fara út í ýmislegt, sem hv. þm. beindi til mín í ræðu sinni. En þó vil jeg drepa á eitt að lokum. Hann var að tala um siðbótarstarfsemi hjá mjer í sambandi við það, sem jeg talaði áður um siðbótastarf hans hjer í þinginu. Jeg get sagt honum það, að hvað snertir starfsemi mína innan Framsóknarflokksins, þá skoða jeg það ekki skyldu mína að gefa honum neina skýrslu. En þess má geta, að þessi hv. þm. hefir ekki sparað að nota ýms vel valin orð, sem jeg gæti tekið mjer til fyrirmyndar til þess að brýna flokkinn til siðbótar, svo sem það að bera honum á brýn, að hann „ráðist á saklausa menn“, „rjúfi gerða samninga“, „svíki gefin loforð“, „skeri niður menn“ o. s. frv. Jeg get þessa hv. þm. til fróunar, ef honum fyndist það dragast fyrir mjer að gefa skýrslu um mína siðbótarstarfsemi innan flokksins.

Loks ætlaði jeg að drepa lítilsháttar á till. á þskj. 290, XLTV. lið, um styrk til mjólkurniðursuðufjelagsins Mjallar. Jeg vil ekki reyna um of á þolinmæði háttv. þm. með því að fara langt út í það mál, en jeg álít, að till. frá minni hl. fjhn. í XLV. lið mundi koma fjelaginu betur, ef till. um aukinn toll kynni að ganga fram hjer í þinginu, því að þótt svo færi, að fyrri till. yrði samþykt, en tollurinn ekki, þá er mikið spursmál, hvort það kæmi að nokkrum notum fyrir fjelagið, þó samþyktur yrði slíkur styrkur því til handa, sem ekki kæmi í gagn fyr en á árinu 1926. Jeg hygg, að svo sje ástatt fyrir fjelaginu, að því aðeins komi því slík hjálp að notum, að hún komi nú þegar. Jeg hygg, að það sje alveg rjett hjá hæstv. fjrh. (JÞ), að það sje bara til að sýnast að samþykkja þennan styrk, ef hann kemur ekki að notum þegar á þessu ári. Ef þingið vill styrkja fjelagið í vandræðum þess, þá verður hjálpin að koma sem fyrst, og einmitt, að mínu áliti, sem till. minni hl. fjhn. bendir til: með verndartolli.