27.04.1925
Neðri deild: 65. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2614 í B-deild Alþingistíðinda. (1682)

118. mál, herpinótaveiði

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vil lýsa undrun minni yfir því, hvað þessu máli er flýtt. Það er í dag tekið á dagskrá á undan stjfrv., sem nál. er komið um fyrir mánuði. Mig undrar það, að hæstv. forseti (BSv) skuli ekki taka málin á dagskrá í þeirri röð, sem þau koma frá nefndum. Því að þótt þetta sje máske áríðandi mál, þá eru þó ýms mikilsverð mál eldri, sem bíða.

Annars er það frv., sem hjer liggur fyrir, ótímabært, því að engin samþykt er enn sett um þá síldveiðalínu á Skaga- firði, sem ræðir um í lögunum frá 1923. Það var fyrst í vetur, að sýslunefnd gerði till. um þetta; en það er eftir að leggja þær fyrir hjeraðsfund og síðan þarf staðfesting atvinnumálaráðuneytisins.

Mjer finst undarlegt að vilja afnema þessi lög frá 1923, áður en þau koma í gildi, því að hjer er ekki um stórt svæði að ræða; það er dálítil sneið að vestanverðu á firðinum, en ekkert að austan. 1923 var engin mótspyrna gegn þessum lögum, og höfðu þó báðar sjútvn. málið til meðferðar, og fór það svo að segja orðalaust í gegnum þingið.

Um álit Bjarna Sæmundssonar er það að segja, að það er ekki skriflegt. Má vera, að hann hafi sagt eitthvað því líkt, sem nefndin segir, er hann var spurður um málið í flýti um leið og hann steig á skipsfjöl. En annars er þess að geta, að hann er alveg ókunnugur á þessum slóðum og jeg veit ekki til, að hann hafi rannsakað þetta mál sjerstaklega.

Jeg rengi ekki, að það sje rjett, sem hv. sjútvn. hefir eftir formanni Fiskifjelagsins, en mjer virðist hann vera nefndinni ósammála, því að hann vill láta rannsaka einnig aðrar síldveiðalínur, en það er ekki tilætlun hv. nefndar.

Jeg man eftir því, að þegar lögin 1917 voru sett um friðun Húnaflóa, þá var ekki hreyft neinum mótmælum gegn þeim. Það er eins og það sje fyrst nú, að sjútvn. er farin að sjá skaðsemi þessara síldveiðalína, og er það máske vegna þess, hvað hún er miklu betur skipuð nú en áður var!

Því hefir verið haldið fram, að afnám laganna frá 1923 muni ekki skaða þorskveiðar á Skagafirði, en jeg held, að þessi skoðun stafi af því, að þeir, sem hana hafa, eru ekki nákunnugir og líta eingöngu á hag síldveiðamanna. Sjómenn þar nyrðra hafa sagt mjer, að þegar fjöldi skipa er þarna að veiðum, þá trufli það fiskgöngu inn í fjörðinn, og hitt veit jeg, að herpinótabátar hafa stundum spilt veiðarfærum.

Það er rjett, að landhelgin er eign landsmanna í heild, en það er full heimild til að takmarka afnot á vissum svæðum í vissum tilgangi, enda hefir Alþingi margsinnis viðurkent það. Það er ekki rjett, að hjer sje um lítið fjárhagsatriði að ræða fyrir Skagfirðinga. Það er allstórt hjerað, sem nýtur þessarar friðunar. Þar er talsverð útgerð, og margir, sem hafa sitt lífsuppeldi af því. En það eru aðeins hagsmunir fárra manna, er bundnir eru við það að veiða síld þarna.

Jeg vildi fá að vita það hjá hv. sjútvn., hvers vegna hún hefir ekki tekið línurnar á Eyjafirði og Húnaflóa líka. Það hefði verið hreinlegast, enda lítur það hálfilla út að bekkjast þannig til við Skagfirðinga eina.

Jeg legg því til, að frv. þetta verði felt.