29.04.1925
Neðri deild: 67. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2631 í B-deild Alþingistíðinda. (1692)

118. mál, herpinótaveiði

Jakob Möller:

Jeg hefði helst kosið að geta náð samkomulagi um þetta mál, og þess vegna vildi jeg beina því til hæstv. atvrh. (MG), hvort það væri ekki hægt á þann hátt, að hann ljeti ekki koma strax til framkvæmda samþykt Skagfirðinga, sem nú er í undirbúningi, og vísa jeg þar til 4. gr. laga nr. 16, frá 1913, þar sem svo er ákveðið, að það sje á valdi stjórnarinnar, hvenær slíkar samþyktir öðlist gildi. Nú er óvíst, hvenær samþykt þessi verður tilbúin af hálfu Skagfirðinga; eins líklegt, að það verði ekki fyr en komið er fram á síldveiðitímann, og gæti þá hæstv. atvrh. haft það í hendi sjer að láta hana ekki koma til greina fyr en eftir að síldveiðum er lokið norður þar að þessu sinni. Með þessu móti mundi vinnast tími til þess að taka alla þessa löggjöf til athugunar og búa hana svo úr garði, að leggja mætti frv. um þetta efni fyrir næsta þing.

Ef hæstv. atvrh. vildi ganga inn á að miðla málum á þennan hátt, mundi jeg bera fram rökstudda dagskrá í þessa átt.

Að öðru leyti datt mjer í hug, út af samþykt á Húnaflóa, að spyrjast fyrir um, hvort hún muni ekki úr gildi fallin, vegna þess að svo mun ákveðið í lögunum, sem eru frá 1917, að hún skuli úr gildi falla, sje hún ekki endurnýjuð á 5 ára fresti.