20.02.1925
Neðri deild: 12. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2758 í B-deild Alþingistíðinda. (1800)

50. mál, tollalög

Klemens Jónsson:

Hv. flm. þessa frv. byrja greinargerð sína með því að segja, að aðalástæður stjórnarinnar, er lagði frv. um einkasölu á tóbaki fyrir þingið 1921, hafi verið hin brýna þörf ríkissjóðs fyrir auknar tekjur. Sama hafi vakað fyrir meiri hluta fjárhagsnefndar, sem málið hafði til meðferðar, en þar bóli hvergi á því, að þeim hafi þótt einkasölufyrirkomulagið hagstætt. Með öðrum orðum, frumvarpið, sem varð að lögum, hafi ekki komið fram af princip-ástæðum, heldur eingöngu af fjárhagsástæðum. Þetta skal jeg ekki rengja, en jeg vil strax taka það fram, að jeg get ekki sjeð, að það sje rjett hjá hv. flm. (BL), að ástæðurnar hafi verið þær, að grípa hafi þurft til örþrifaráða. Enda kemur það alls ekki fram, hvorki í greinargerð frv. nje heldur hjá fjhn. Hitt mun rjett, að höfuðástæðan til þess, að frv. kom fram, var fjárhagslegs eðlis aðallega. Jeg get lýst því sem minni persónulegu afstöðu til þessa máls, að jeg fylgi einkasölu á tóbaki bæði af principi og vegna þess, að jeg tel það hagnað. Jeg hefi sýnt það áður, að jeg teldi heppilegt, að landið hefði með höndum einkasölu á einstökum vörutegundum, og hefði um leið sjálft allan hagnaðinn af sölunni. Fyrir 16 árum síðan sat jeg í milliþinganefnd í skattamálum ásamt einum af hv. flm. þessa frv. Nefndin kom að vísu ekki fram með frv. til einkasölu á tóbaki, þó að það kæmi reyndar til umtals. En hún bar fram tvö önnur frv. um einkasölu fyrir ríkið, og er annað þeirra nú gildandi lög. Þetta tek jeg fram til þess að sýna afstöðu mína til einkasöluhugmyndarinnar fyrir mörgum árum, að því er einstakar vörutegundir snertir, og hún er óbreytt enn. En að landið taki alla verslunina í sínar hendur, getur ekki komið til mála að svo stöddu. Jeg er ekkert hræddur við það, að landið hafi einkasölu á einstökum vörutegundum, sem til þess eru fallnast. Jeg þykist hafa nokkra þekkingu á sögu þessa lands, ekki síður en hv. flm. (BL), og það fælir mig ekkert frá því að fylgja þjóðnýtingu á þessum vörutegundum. Annars hjelt jeg, að manni yrði hlíft við því hjer í þingsölunum að heyra blandað saman einkasölu ríkisins á einstökum vörutegundum og hinni illræmdu dönsku verslunareinokun fyrrum. Jeg hjelt, að sá draugur væri löngu kveðinn niður.

En þó þetta mál sje princip-mál fyrir mjer, þá er það eigi að síður fjárhagsmál. Jeg tel sjálfsagt að halda einkasölu á einstökum vörum, ef það aflar landinu mikilla tekna, sem annars mundu renna í vasa óþarfra milliliða. Þess vegna tel jeg sjálfsagt að halda tóbakseinkasölunni áfram. Það er af þessum sömu ástæðum, að slíkar einkasölur gilda nú víðsvegar í útlöndum, ekki síst hvað snertir tóbak En hins vegar, ef jeg yrði sannfærður um, að ágóðinn af einkasölunni væri svo lítill, að mjög litlu munaði, eða að kaupendur og neytendur vörunnar hefðu mein eða óþægindi af völdum einkasölunnar, fengju t. d. ekki eins góða vöru og áður eða að mun dýrari en áður, þá teldi jeg rjett að leggja hana niður. Um síðara atriðið er það að segja, að jeg hefi ekki orðið þess var, að neinar sjerlegar umkvartanir hafi átt sjer stað í þá átt. Menn eiga nú eins og áður greiðan og góðan aðgang að því að afla sjer tóbaks, og um gæði þess hafa engar kvartanir heyrst nú um langt skeið, en upphaflega munu hafa heyrst kvartanir um það, að varan væri ekki góð. En það stafaði af því, að einkasalan varð í upphafi að kaupa miklar birgðir af tóbaki, sem var illhæf verslunarvara. Því ýmsir höfðu, þegar þeir áttu von á einkasölulögunum, flýtt sjer að flytja inn miklar birgðir af tóbaki, og þar á meðal ýmsar mjög ljelegar tegundir, sem menn varla gátu tekið í munn sjer eða látið í pípu. Hvort þeir hafa gert það til þess þegar í upphafi að gera landsverslunina ófræga, skal jeg ekki um segja. Hitt er víst, að landsverslun varð að kaupa vörurnar; og það er nú fyrst, að þær eru uppseldar. Það sjest best, hve þessar birgðir námu miklu, þegar það er athugað, að samkvæmt skýrslu námu tóbaksbirgðirnar þá 1½ milj. kr. með heildsöluverði, en nú nema þær venjulega ca. 300 þús. kr. Tölur þessar eru talandi vottur þess, að hjer er farið með rjett mál um innflutning kaupmanna.

Um fyrri ástæðuna, sem jeg nefndi, um afraksturinn, þá verð jeg að vera á alt öðru máli en hv. flm. (BL) um hagnaðinn af einkasölunni. Jeg verð að líta svo á, að hjer sje ekki aðeins um sæmilegan, heldur mikinn hagnað að ræða. Skal jeg nú víkja nokkrum orðum að því, sem segir í greinargerð frv. um hagnað ríkissjóðs af einkasölunni.

Í fyrsta lagi vantar alveg að gera grein fyrir því fje, sem lagt hefir verið i varasjóð einkasölunnar, þar sem taldar eru tekjur ríkissjóðs af henni. En það fje nam árið 1922 8 þús. kr., 1923 21 þús. kr. og árið 1924 35 þús. kr., og nemur það samtals fullum 60 þús. kr., sem hvergi sjest í greinargerð flutningsmanna.

Þá er það rangt, sem flm. frv. segja, að 90—100 þús. kr. af ágóðanum fyrir 1924 stafi mest af gengishagnaði og uppfærslu vegna tollhækkunar. Það rjetta er, að gengishagnaðurinn nemur 65 þús. kr. auk 350 þús. kr. í ríkissjóð og 35 þús. kr. í varasjóð. Annar gengishagnaður var ekki. Hagnaður af vörubirgðum vegna tollhækkunar var ekki yfir 20 þús. kr. Það er ekki heldur rjett að tala um 25 þús. kr. gengistap 1923, því að það tap var greitt áður en hreinn arður, 200+ 21 þús. kr. kemur fram. Ef það gengistap hefði ekki orðið. hefði gróði þess árs orðið 25 þús. kr. hærri. En það er alrangt og villandi gagnvart tekjunum af einkasölunni að tala um venjulegt verslunarár hennar sem meðaltal af árunum 1922, 1923 og 1924, og leggja það til grundvallar, því að árið 1922 er verslunin í byrjun, og 1923 er hún enn á byrjunarskeiði. Það er fyrst 1924, sem hún er komin í fullan gang. Því ber að telja það ár eitt sem venjulegt ár. Annað er villandi. Viðskiftavelta einkasölunnar var árið 1924 að þyngd 10% meiri á ýmiskonar tóbaki og 20% meiri á vindlum og vindlingum heldur en árið 1923, þó innflutningur standi svo á, að hafi verið svipaður bæði árin. En ef leggja á 1924 til grundvallar útreikningi á tekjum ríkisins af einkasölunni á árinu 1925, má áætla í ríkissjóð og varasjóð um 387 þús. kr. Tollur (tollhækkunin gildir alt árið) 553 þús. kr. Samtals 940 þús. kr. En sje tollur reiknaður eftir þessu frv. eftir sömu reglum, kemur út: 74300 kg. tóbak á 6 kr. pr. kg. 445800 kr.; 17583 kg. vindlar og vindlingar á 16 kr. pr. kg. 281328 kr. Samtals 727128 kr. Tap ríkissjóðs af þessu frv., ef það nær fram að ganga, er því 213 þús. kr., og er það talsvert álitleg upphæð. Það er því alls ekki rjett hjá hv. flm. frv., að tekjurnar verði sem næst þær sömu eftir frv. og af einkasölunni. Ef árið 1924 er lagt til grundvallar, sem er hið eina rjetta, munar það ríkissjóð 200 þús. kr., og þar sem einkasalan er nú loks komin yfir örðugasta hjallann, búin að úttaka sína barnasjúkdóma, mun ekki óvarlegt að fullyrða, að tekjur hennar yrðu enn meiri framvegis, alt að 300 þús. kr. meiri en fást munu eftir frv., eða full ein miljón. Nú spyr jeg: Er nokkurt vit í því að kasta frá sjer slíkum tekjum í hendur fárra einstaklinga, kaupmanna og heildsala? Jeg skil ekki. að vjer höfum leyfi til þess nú á þessum krepputímum að fara þannig að, jafnframt því sem við ætlum að borga allar lausaskuldir ríkissjóðs á næstu þrem árum, svo sem hæstv. fjrh. (JÞ) hefir lagt til. Og jeg er honum alveg sammála um að það eigi að vera markmið okkar fyrst og fremst að greiða þessar lausaskuldir, hvort sem það tekur 3 eða 4 ár. En jeg sje ekki nokkur ráð til þess, að það geti orðið, að það takmark náist, ef við nú köstum frá okkur 300 þús. kr. árlegum tekjum.

Að endingu vildi jeg minnast lítilsháttar á 2. og 3. gr. frv. Þar eru sjerstök ákvæði, sem hv. flm. (BL) líka talaði um, og eiga að vera til þess að girða fyrir tollsvik. En hræddur er jeg um það, að þær reglur reynist nokkuð umfangsmiklar og kostnaðarsamar. Ef það er meiningin, að lögreglustjóri eigi að opna hvern tóbakspakka og stimpla hvern cigarettupakka, svo tugum þúsunda skiftir, get jeg trúað því, að slíkt yrði ekki öldungis kostnaðarlaust. Auk þess er mjer sagt, að það sje ekki gott, einkum hvað snertir cigarettur og sumt annað tóbak, að liggja lengi í opnum umbúðum. Er venja að opna ekki slíkar umbúðir fyr en jafnóðum og þörf gerist. En hjer yrði þetta að gerast jafnóðum og tollur er greiddur. Sem sagt, þetta verður ekki aðeins skaðlegt, heldur líka kostnaðarsamt, og þarf engan að undra, þó að kröfur kæmu í þessu tilefni frá lögreglustjórum víðsvegar um land um aukið skrifstofufje einmitt vegna þessa frv.

Loks skal jeg geta þess, að mjer finnast flm. frv. fullbráðir hvað snertir gildi þessara laga, þar sem gert er ráð fyrir að leggja einkasöluna niður svo að segja þegar í stað. Að vísu gat hv. flm. (BL) þess, að það atriði væri þeim ekkert kappsmál, og mætti þá laga það í nefnd.

Af öllum þeim ástæðum, sem nú hefi jeg nefnt, álít jeg þetta frv. ekki þess eðlis, að það eigi að verða að lögum. Jeg tel rjett að reyna einkasöluna áfram, því að jeg tel hana ekki fullreynda enn. Hv. flm. (BL) gat þess á þingi í fyrra, er rætt var um einkasölu þessa, að hann vildi reyna hana enn eitt ár, og er langt frá, að jeg vilji áfellast hann fyrir það. En eins og jeg hefi nú tekið fram, er langt frá því, að reynsla síðasta árs. gangi á móti einkasölunni; þvert á móti. Og er því í rauninni óskiljanlegt, að þetta frv. skuli vera komið fram, þegar þau ummæli eru athuguð. Jeg legg því eindregið á móti því, að frv. þetta nái fram að ganga, og get alls ekki greitt því atkvæði mitt áfram og ekki einu sinni til nefndar.