25.02.1925
Neðri deild: 16. fundur, 37. löggjafarþing.
Sjá dálk 2900 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

50. mál, tollalög

Tryggvi Þórhallsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka aftur til máls. En það voru þessi orð hæstv. fjrh. (JÞ), að hjer væri ekki um fjárhagsmál að ræða, sem knýja mig til þess. Og þá vil jeg minna hann á, að 10 flokksmenn hans hafa sagt, að einkasalan hefði komist á vegna fjárhagsástæðna ríkissjóðs. (Fjrh. JÞ: Það hefi jeg líka sagt). En hafi það í upphafi verið fjárhagsmál, þá hlýtur það að vera það enn.

Ef það er tilgangur frv. að auka innflutning á tóbaki, þá verð jeg nú að segja fyrir mig, — og jeg býst við, að margir sjeu sömu skoðunar í þessari hv. deild —, að þá er jeg ennþá eindregnari á móti því. Sýni tóbakseinkasalan það, að tóbaksnautn landsmanna fari þverrandi, þá tel jeg, að hún eigi fullan rjett á sjer einnig að því leyti.

Annað mál er það, að ef hæstv. fjrh. (JÞ) finst það svona bráðnauðsynlegt, að tóbaksnotkun aukist í landinu, — hvers vegna flytur hann þá ekki frv. um að gera tóbaksnotkun að skyldunámsgrein t. d. í öllum barnaskólum landsins? Þá gæti hann eflaust búist við með rjettu, að innflutningurinn myndi aukast og tóbakstollurinn fylla hærra í ríkisfjárhirslunni.